Sunndalsá: Fiskistofa kom ekki að veiðum í ánni

Ívar Örn Hauksson við Sunndalsá.

Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri lax og silungsveiðisviðs á Fiskistofu segir að Fiskistofu hafi ekki komið að veiðunum í Sunndalsá í síðasta mánuði, en þá fóru nokkrir menn í ána og veiddu í net 16 laxa, sem þeir töldu vera eldislaxa.

Fiskistofa getur lögum samkvæmt heimilað að eyða fiski úr veiðivatni vegna sjúkdóma eða sníkjudýra en skal áður afla umsagna veiðiréttarhafa. Veiðitímabili lýkur 30. september en Fiskistofu er heimilt að lengja tímabilinu til 31. október að fenginni umsögn Hafrannsóknarstofnunar. Rekkafarar frá Noregi voru hér á landi á vegum Fiskistofu sem greiðir kostnaðinn og innheimtir hann svo hjá eldisfyrirtæki sem í hlut á. Veiðitímabilinu var lokið þegar hópurinn fór í Sunndalsá. Einn úr hópnum, Ívar Örn Hauksson, greindi frá veiðunum í myndbandi sem sett var á youtube. Kemur þar fram að reikningur fyrir aðgerðunum verði sendur til Arctic Fish.

Guðni Magnús Eiríksson segir að komi til þess verði hópurinn að innheimta sjálfur beint til fyrirtækisins, Fiskistofa komi ekki að því.

Fengið var samþykki frá tveimur eigendum en sá þriðji veitti ekki samþykki eins og sagt var frá á Bæjarins besta í fyrradag. Segir sá að samþykki allra eigenda þurfi til að koma.

Ívar Örn Hauksson segir að slitið sé í fréttinni úr samhengi það sem var verið að gera í Sunndalsá en var ófáanlegur til þess að skýra þau ummæli nánar. Aðspurður hvers vegna hópurinn veiddi í ánni án samþykkis allra landeigenda sagðist Ívar ekki geta svarað því vegna hættu á að svarið yrði slitið úr samhengi.

DEILA