Stjórn Byggðastofnunar ákvað á fundi sínum í byrjun mánaðar, ef samningar nást við hagsmunaaðila um raunhæfar útfærslur, að mögulegt verði að úthluta allt að 500 þorskígildistonnum af aflamarki stofnunarinnar til Strandabyggðar á yfirstandandi fiskveiðiári. Til Hólmavíkur komu tveir fulltrúar Byggðastofnunar og áttu fundi með útgerðaraðilum og sjómönnum á Hólmavík og kynntu þeim möguleikana og hvað í þeim felast. Sértækur byggðakvóti er skilyrtur á þann hátt að honum ber að landa til vinnslu.
Auglýst hefur verið eftir samstarfsaðilum um nýtingu aflaheimilda á Hólmavík.
Með úthlutuninni er að stefnt að uppbyggingu í sjávarútvegi sem:
- skapar og viðheldur sem flestum heilsársstörfum við veiðar, vinnslu og afleidda starfsemi í viðkomandi sjávarbyggðum,
- stuðlar að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma
Endanlegt val á samstarfaðilum mun byggja á eftirfarandi þáttum:
- trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi
- fjölda heilsársstarfa
- sem bestri nýtingu þeirra veiðiheimilda sem fyrir eru í byggðalaginu
- öflugri starfsemi til lengri tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina
- jákvæðum áhrifum á önnur fyrirtæki og samfélagið
- traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjanda
Umsóknir skal senda til Byggðastofnunar, á netfangið aflamark@byggdastofnun.is fyrir kl. 12:00 föstudaginn 15. desember 2023.