Byggðaþróunarverkefnið Sterkar Strandir hófst á árinu 2020 og hefur því staðið yfir í á fjórða ár. Samkvæmt samningi var gert ráð fyrir því að verkefnið stæði yfir til loka árs 2023 þegar Byggðastofnun drægi sig í hlé úr verkefninu.
Sveitarstjórn Strandabyggðar óskaði eftir framlengingu á verkefninu og samþykkti stjórn Byggðastofnunar á fundi sínum 1. nóvember 2023 að framlengja verkefnið um eitt ár, til loka árs 2024.
Íbúar Strandabyggðar urðu fyrir miklu áfalli í sumar þegar í ljós kom að Snæfell, dótturfélag Samherja og eigandi rækjuvinnslunnar Hólmadrangs, ákvað að hætta starfsemi sinni á Hólmavík.
Þar með misstu um 20 íbúar vinnuna enda Hólmadrangur einn stærsti vinnustaður Strandabyggðar. Miklar áskoranir blasa því við í byggðarlaginu við að treysta atvinnulíf og þar með búsetuskilyrði. Vonir standa til að verkefnið Sterkar Strandir geti þar lagt lóð á vogarskálarnar.
Árlegur íbúafundur var haldinn undir merkjum Sterkra Stranda miðvikudaginn 15. nóvember sl.
Dagskráin samanstóð af nokkrum erindum auk þess sem fundargestum gafst tækifæri til að taka þátt í umræðum um stöðu starfsmarkmiða í verkefnisáætlun og greina hvaða áherslur skynsamlegt væri að vinna sérstaklega með, á viðbótarári verkefnisins í þeim tilgangi að ná sem mestum árangri.