Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest tillögu Ísafjarðarbæjar og gert Skutulsfjarðareyri og Neðstakaupstað að verndarsvæði í byggð. Tillaga fór til Minjastofnunar til umsagnar sem mælti með staðfestingunni. Ákvörðunin hefur verið birt í B deild Stjórnartíðinda og hefur tekið gildi.
Í auglýsingunni segir:
Neðstikaupstaður samanstendur af elstu húsaþyrpingu landsins sem enn stendur, og fjöru sem liggur vestan við hana. Svæðið afmarkast af sjólínu til vesturs og Suðurtanga til austurs. Svæðið afmarkast að norðan af þeim stað sem sandfjara sunnan Ásgeirsbakka endar, og liggja mörkin þaðan að Tjöruhúsinu, og snúa mörk svo til norðurs umhverfis húsaþyrpinguna frá 18. öld og ná síðan í skálínu niður að Suðurtanga til austurs. Syðri mörk liggja sunnan við gömlu bryggjuna, þaðan í skálínu sunnan við Suðurtanga 2 og ná til Suðurtanga.
Skutulsfjarðareyri skiptist í Miðkaupstað og Hæstakaupstað og er samfelld og þétt byggð húsa á efra svæðinu á Eyrinni. Svæðið afmarkast af Fjarðarstræti til norðurs og Sundstræti til austurs, og Skipagötu að suðurenda Brunngötu til suðurs. Þaðan sveigjast syðri útmörkin í skálínu til suðurs og ná utan um þau hús sem tilheyra Aðalstræti beggja megin þess hluta götunnar sem liggur sunnan Skipagötu. Syðsti hluti verndarsvæðisins miðast þannig við syðstu húsin í Aðalstræti og ná mörkin umhverfis þetta svæði sem kennt er við Miðkaupstað. Austurmörk svæðisins halda áfram austan með syðstu húsunum við Aðalstræti í norðurátt, en sveigja lítillega til austurs og áfram í norðurátt frá gatnamótum Aðalstrætis og Skipagötu. Markast þau þar af miðju Aðalstrætis og taka mið af upphaflegri legu götunnar í beina línu í átt að Faktorshúsi í Hæstakaupstað. Mörkin sveigja síðan til vesturs meðfram Austurvegi, sunnan Austurvallar, og þaðan til norðurs meðfram Norðurvegi þar til Fjarðarstræti er náð.