Sjúkraflug til Patreksfjarðar – sex útköll um helgina

Gná tekur á loft. Mynd:Landhelgisgæslan.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð í sjúkraflug á laugardagskvöldið til Patreksfjarðar. Þangað var þyrlusveitin komin rétt fyrir miðnætti og flutti einn á Landspítalann í Fossvogi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Þyrslusveitin sinnti sex útköllum um helgina, þar af voru tvö á sjó.Um hádegisbil í gær var þyrlusveitin kölluð út vegna skipverja á túnfiskskipi sem hafði slasast um borð fyrir nokkrum dögum. Ástand hans hafði farið versnandi og skipstjóri skipsins hafði því samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem í samráði við lækni ákvað að kalla þyrlusveitina út til að sækja manninn og koma honum undir læknishendur. Skipið var um 170 sjómílur vestur af Reykjanesi þegar útkallið barst og vegna fjarlægðar frá landi var nauðsynlegt að kalla út tvær þyrlur til að annast útkallið. Áhafnirnar á TF-EIR og TF-GNA flugu vestur að skipinu og kom það í hlut áhafnarinnar á TF-GNA að sækja manninn en áhöfnin TF-EIR var til taks á svæðinu, flaug hærra eða í um 7000 fetum til þess að auðvelda fjarskipti og samskipti við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Reykjavík.

Vel gekk að koma manninum um borð í þyrluna og var flogið með hann á Landspítalann í Fossvogi. Þegar fara þarf í jafn langt flug út á sjó krefst slíkt mikils skipulags og í meðfylgjandi myndbandi má fá innsýn í þetta krefjandi verkefni þyrlusveitarinnar frá því í dag.

Á laugardag var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir kallaðar út vegna veikinda göngumanns á Hrómundartindi á Kattartjarnaleið. Göngumaðurinn var fluttur á Landspítalann með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Laugardagskvöldið sinnti þyrlusveitin þremur verkefnum. Um kvöldmatarleytið þegar þyrlusveitin var á æfingu tilkynni flugmaður eins hreyfils flugvélar sem var á leið til Keflavíkur að truflanir væru í mótor vélarinnar. Þyrlusveitin flaug til móts við vélina og fylgdi henni til lendingar á Keflavíkurflugvelli þar sem hún lenti án vandræða. Seinna sama kvöld var óskað eftir aðkomu þyrlusveitarinnar vegna veikinda um borð í íslensku fiskiskipi sem var statt um 60 sjómílur suður af Grindavík. Aðstæður til hífinga voru krefjandi. Vindur var rúmlega 20 metrar á sekúndu og ölduhæð um 5 metrar. Vel gekk að koma manninum um borð í þyrluna og honum var komið undir læknishendur í Reykjavík. Þriðja verkefnið var svo sjúkraflug til Patreksfjarðar.

DEILA