Ríkið: vilja seinka hafnarframkvæmdum á Þingeyri til að mæta umframkostnaði á Ísafirði

Þingeyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Vegagerðin hefur sent Ísafjarðarbæ tillögu um að seinka verkinu Þingeyri: Endurbygging innri hafnargarðs, 1. áfangi, til 2027-2029 og að verkið Þingeyri: Löndunarkantur, endurbygging verði tekið út af gildandi samgönguáætlun.

Fyrra verkið er 115 metrar langur garður og miðað við dýpi 5 – 7 metra. Áætlaður kostnaður við allt verkið er 275 m.kr. Fyrsta fjárveiting til þess er á þessu ári. Þá er samkvæmt samgönguáætluninni gert ráð fyrir framkvæmdum fyrir 40 m.kr. og hlutur ríkisins af því er 24,2 m.kr. Á næsta ári er ráðgert að framkvæma fyrir 100 m.kr. og leggur ríkið til 60,5 m.kr. þar af.

Tilefni tillögunnar frá Vegagerðinni er aukinn kostnaður við lengingu Sundabakka.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar segir í bókun að tillaga Vegagerðarinnar sé ótæk og leggur þess í stað til að endurbyggingu innri hafnargarðsins verði seinkað til 2025 og að endurbyggingu löndunarkantsins verði seinkað i samræmi við það.

DEILA