Píratar: fjórar rangar staðhæfingar um íbúaþróun

Allir þingmenn Pírata og einn þingmaður Viðreisnar hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um bann við sjókvíaeldi. Telja þingmennirnir nauðsynlegt að banna eldið sem fyrst. Um byggðaáhrifin af laxeldinu segja flutningmennirnir í greinargerð sem fylgir með tillögunni:

„Í umræðunni hefur því verið haldið á lofti að sjókvíaeldi sé nauðsynlegt fyrir byggðaþróun og atvinnuöryggi þeirra svæða þar sem eldið er stundað. Vissulega hefur íbúum fjölgað á þessum svæðum í kjölfar fjölbreyttara atvinnuframboðs. En þegar rýnt er í tölur sést að erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað töluvert en íslenskum ríkisborgurum fækkað. Körlum hefur fjölgað en konum og börnum fækkað. Þessar tölur gefa til kynna að um sé að ræða erlenda karlkyns ríkisborgara sem sækja sér tímabundna atvinnu á svæðinu og að mörg af þessum störfum styðji ekki raunverulega samfélagsuppbyggingu.“

Þarna segja þingmennirnir að byggðaáhrifin af eldinu séu ekki eins og jákvæð og ætla mætti og halda fram m.a. þessu:

íslenskum ríkisborgurum hefur fækkað

konum og börnum hefur fækkað

um er að ræða karlkyns erlenda ríkisborgara sem sækja sér tímabundna atvinnu á svæðinu

störfin styðji ekki raunverulega samfélagsuppbyggingu.

Allar fullyrðingarnar rangar

Fyllsta ástæða er til þess að fara yfir þessar staðhæfingar þingmannanna eftir því sem tök eru á. Það verður hér gert þannig að skoða sérstaklega sveitarfélagið Vesturbyggð. Laxeldið hófst fyrst á sunnanverðum Vestfjörðum og það er kominn um áratugur síðan fyrsti laxinn fór í sjó. Stærstu eldisfyrirtæki landsins, Arnarlax og Arctic Fish eru bæði með mikla starfsemi í sveitarfélaginu, uppbygging er vel á veg komin og áhrif atvinnugreinarinnar eru greinilega komin fram. Á norðanverðum Vestfjörðum er laxeldið seinna á ferðinni en gríðarleg uppbygging á sér stað um þessar mundir þar, einkum við Djúp og vöxtur mikill. Það verður fróðlegt að skoða tölur á því svæði eftir til dæmis tvö ár.

Mikil íbúafjölgun – 33%

Þegar Vesturbyggð varð til árið 1994 voru íbúarnir í sveitarfélögunum fjórum sem sameinuðust alls 1.463. Mikil fækkun varð allt til ársins 2011, þegar íbúar urðu hvað fæstir eða 890. Það er fækkun um 573 eða hartnær 40%. Þetta er veruleikinn. Síðan hefur fjölgað á nýjan leik og Hagstofan gefur upp að íbúar séu 1.182. Það er fjölgun um 292 manns á aðeins 12 árum. Það gerir 33% fjölgun. Þessi fjölgun varð ekki vegna fjölgunar starfa á vegum hins opinbera og hún varð heldur ekki vegna fjölgunar starfa í hefðbundnum sjávarútvegi. Þar er störfum frekar að fækka en hitt. Það er aðeins ein skýring á þessum viðsnúningi og það er nýting auðlindarinnar í fjörðunum til atvinnusköpunar – laxeldið. Á Patreksfirði urðu íbúar fæstir árið 2009 og voru þá 617 en þeir eru núna 788. Það er 28% fjölgun.

Þetta eru mikil viðbrigði. Í stað mikillar og stöðugrar fækkunar hefur þróunin snúist við og nú er umtalsverð fjölgun. Það er bjartsýni og miklar vegaframkvæmdir eru að færa fólkið í sveitarfélaginu nær þeim veruleika að standast samanburð við aðra landshluta. Þó að enn vanti töluvert upp á að íbúafjöldinn sé sá sem hann var við sameiningu sveitarfélaganna 1994 þá hefur síðasti áratugur verið uppgangstími sem mun halda áfram.

Línuritið sýnir íbúaþróun frá 1998 til 2023. Hagstofan er ekki með tölur fyrir árið 1998.

Þá má finna í gögnum Hagstofunnar skiptingu íbúa eftir kynjum og aldri. Á vef Þjóðskrár má finna upplýsingar eftir ríkisfangi.

Það er rétt sem fram kemur í greinargerðinni að erlendum ríkisborgurum hafi fjölgað. Í Vesturbyggð voru árið 2011 alls 115 erlendir ríkisborgarar en þeir eru nú 376. Fjölgunin er 261. Íslendingum hefur hins vegar ekki fækkað eins og haldið er fram. Þeir voru 772 árið viðmiðunarárið 2011 en eru nú 806. Það er fjölgun.

En þá verður líka að hafa í huga að erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað á þessum tíma úr 28.283 upp í 78.420 manns eða um liðlega 50.000 manns. Fjölgun Íslendinga var ekki nema 19.169 á sama tíma. þjóðfélagið hefur tekið stakkaskiptum á þessum 12 árum og hagkerfið stækkað gríðarlega umfram íbúafjölda og störfin eru mönnuð með útlendingum. Það á við um ferðaþjónustuna, svo sem hótelin á höfuðborgarsvæðinu, ræstingu, byggingariðnaðinn o.s.frv.

Nýlega var upplýst hér á Bæjarins besta að starfsmenn allra eldisfyrirtækjanna væru búsettir hér á landi og flestir í fjórðungnum þannig að ekki er um farandverkamenn að ræða í skammtímadvöl heldur fólk sem er hluti af samfélaginu. Alls eru um 350 bein störf hjá fyrirtækjunum fimm. Hjá Arnarlax einu eru 136 störf á sunnanverðum Vestfjörðum.

Niðurstaðan er að í Vesturbyggð hefur íbúum fjölgað, Íslendingum hefur fjölgað, búsetan er varanleg og laxeldið styður samfélagslega uppbyggingu.

konum og börnum hefur fjölgað

Næst er að líta á þróunina varðandi konur og börn. Hér að neðan er línurit sem sýnir fjölda kvenna frá 1998. Þær voru 615 árið 1998 og fækkaði í 438 árið 2011 þegar fæst var. Síðan hefur fjölgað og þær eru núna 520. Það er fjölgun en ekki fækkun eins og haldið er fram.

Þegar skoðaður er sérstaklega t.d. fjöldi kvenna á aldrinum 25 til 40 ára, sem er mikilvægur hverju samfélagi þá kemur í ljós enn meiri fjölgun í þeim hópi en hjá konum í heild. Þær voru 130 árið 1998 og fækkað í 86 þegar fæst var, en það var árið 2006 og aftur 2012. Síðan fjölgaði og 2019 voru þær 98. Síðan þá hefur fjölgað verulega og eru konurnar á þessum aldri núna 141. Þar með eru þær orðnar fleiri en var 1998.

Næst er að líta á fjölda barna. Þar var skoðað á vef Hagstofunnar fjöldi barna yngri en 16 ára. Börnin voru 346 árið 1998. Síðan fækkaði stöðugt fram til 2011 og þá voru börnin 164 í sveitarfélaginu innan við 16 ára. Eftir það hefur börnum fjölgað og eru þau núna 216. Fjölgunin er 32%. Sveitarfélagið hefur orðið vart við fjölgunina og hefur þurft að stækka leikskólana til þess að mæta þörfinni.

Niðurstaðan er því sú að bæði konum og börnum hefur fjölgað eftir að laxeldið fór að hafa áhrif þvert á það sem haldið er fram í þingsályktunartillögunni sem liggur fyrir Alþingi.

Allar þær fullyrðingar flutningsmanna sem dregnar eru fram í upphafi greinarinnar eru rangar.

Það sem rétt reynist í greinargerðinni er að körlum hefur fjölgað og að erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað. Fjölgun útlendinga er meira í ætt við almenna þróun á landinu á þessu árabili en að vera sérstök þróun tengd laxeldi. Fjölgun karla í Vesturbyggð hefur verið mun meiri en fjölgun kvenna og það er athugunarefni. Körlum fjölgað úr 450 í 665 frá 2011. Helst eru það karlar á aldrinum 30-34 sem eru fleiri en aldurspíramídinn gefur tilefni til. Umframfjöldinn gæri verið 20- 25 manns. Þetta er eitthvað sem vert er að skoða en þó liggur fyrir að þessi hópur er búsettur hér á landi.

Kannski eru eðlilegar skýringar á þessu og kannski er hægt að fá fleiri konur til starfa. Það sem sýnilegt er að ungt og menntað fólk hefur flutt vestur, sumir til heimahaganna, vegna þess að laxeldið gaf tækifæri sem ekki voru áður til staðar. Þessi tækifæri munu bara verða fleiri með vaxandi fiskeldi.

Svo má ekki gleyma því að laxeldisfyrirtækin fá enga styrki frá ríkinu heldur byggjast upp á framleiðslu á vöru sem selst á háu verði á erlendum mörkuðum. Fyrirtækin standa undir sér og uppbyggingunni og greiða há gjöld og skatta til samfélagsins. Eldið verður ein af allra mikilvægustu atvinnugreinum landsmanna og tekjur af því munu standa undir bættum almennum lífskjörum á næstu árum og áratugum. Það eru áskoranir í matvælaframleiðslu af þessu tagi en framfarir í greininni eru miklar og það mun skila sér.

Af þessum sökum eru það fáir aðrir en flutningsmennirnir sjö sem taka undir bann við laxeldi í sjókvíum. Það er eins og fyrsti þingmaður kjördæmisins Stefán Vagn Stefánsson sagði á fundi á Ísafirði á mánudagskvöldið , það er tómt mál að tala um að banna sjókvíaeldi.

-k

DEILA