f. 26. maí 1944 – d. 25. október 2023.
Jarðsunginn frá Raufarhafnarkirkju 18. nóvember 2023.
Daníel Þórhallsson, útgerðarmaður í Siglufirði, söng einsöng með Karlakórnum Vísi undir stjórn Þormóðs Eyjólfssonar í laginu “Vor í Dal” eftir Peter Wulsing. Þetta naut mikilla vinsælda upp úr miðri öldinni sem leið; heyrðist oft leikið í Ríkisútvarpinu að beiðni hlustenda. Þormóður var bróðir Sigurðar Birkis, söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar. Upphaf hins ástsæla ljóðs Freysteins Gunnarssonar er svona: “Þó að æði ógn og hríðir / aldrei neinu kvíða skal. /Alltaf birtir upp um síðir, / aftur kemur vor í dal.”
Um lagavalið í Óskalagaþætti sjúklinga sagði íslenskur rithöfundur, að af því mætti ráða, að það yrði aldrei neinn músíkalskur maður veikur. En það er önnur saga.
Sigurður, sonur Daníels, var raddmaður ágætur eins og faðir hans. Minntist Sigurður þess, að þegar hann hefði unglingsmaður rekið upp rokur einsöngvarans í umræddu lagi, stokkið með öllu hindrunarlaust og án erfiðismuna í hæstu hæðir í stað þess að láta nægja að benda á háa tóninni uppi í rjáfri, hefði hann undantekningarlaust verið beittur höstugu aðkalli: “Viltu gjöra svo vel að hætta að herma eftir honum pabba þínum, Sigurður!”
Sigurður Daníelsson var hæfileikamaður og fjölmargt til lista lagt. Hann var sterkgreindur, sleipur skákmaður, flínkur teiknari, músíkalskur í besta lagi, skemmtilegur í viðræðu og búinn næmri kímnigáfu. Hann lék á píanó og var prýðilega lipur organisti; hafði vel á valdi sínu svonefnda módúlasjón, þ.e. tóntegundaskipti, er ljá guðsþjónustunni samfelldan svip og forða því að óþarfa gat komi í athöfnina eða kindarlegt hlé.
Gerum ráð fyrir að nú ljúki organisti sálmi í C-dúr, en síðan eigi prestur að upphefja messutón, er falla skuli að svari kórs og safnaðar í B-dúr. Prestur velur þá tónhæð, er honum hentar, en söfnuður svarar í hinum fyrirskrifaða B-dúr. Messufólkið hrekkur við; þetta stingur óþægilega í eyrun. Það hefur orðið hljómfræðilegur árekstur milli prests og söngflokks. Prestur hefði getað bjargað þessu með því að taka réttan tón, án þess organistinn gæfi honum hann. Orgelleikarinn hefði líka getað liðsinnt með því að gefa presti tóninn, annað hvort einan sér, ellegar, sem betur fer á, með módúlasjón.
Allt gekk þetta skafið þar sem Sigurður Daníelsson var organisti.
Prestur einn, sem lengi þjónaði á Vestfjörðum og kunni að lesa hljóð af blaði, hafði jafnan sálmasöngsbókina á altarinu og tók því ávallt réttan tón. Ungur kollega, sem var söngvinn að hófi, brynjaði sig gegn tónfræðilegum skakkaföllum með því að hafa hjá sér það einfalda, en gagnsamlega verkfæri, tónkvísl.
Sigurður heitinn úrsmíðameistari og organisti lengi Fríkirkjunnar í Reykjavík Ísólfsson var undrafimur að færa sig stystu leiðina á milli tóntegunda. Guðfræðinemi, sem var að bjástra við að skrifa ritgerð um módúlasjón, spurði Sigurð hvernig hann hefði lært þessa list. Sigurði varð þá þetta að svari: “Fingurnir rata alveg af sjálfu sér.” En Sigurður var raunar sjení.
Með mikilli þökk og í bæn um blessun Guðs er Sigurður G. Daníelsson kært kvaddur. Friður Guðs sé yfir legstað hans og blessun yfir endurfundum hans við ástvinina, sem á undan honum eru farnir af þessum heimi. Guð blessi hann og ástvini hans alla, bæði þessa heims og annars.
Gunnar Björnsson,
pastor emeritus.