Matvælaþing í næstu viku

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra boðar til Matvælaþings 2023 sem haldið verður í Silfurbergi í Hörpu 15. nóvember nk.

Hringrásarhagkerfið, í samhengi við nýsamþykkta matvælastefnu til ársins 2040, er meginviðfangsefni þingsins sem er nú haldið í annað sinn.

Á þinginu koma saman undir einu þaki þær ólíku starfsgreinar sem koma að framleiðslu, vinnslu og dreifingu matvæla á Íslandi. Þar myndast vettvangur fyrir samræðu milli neytenda, stjórnvalda og framleiðenda um matvæli í hringrásarhagkerfinu.

Gestafyrirlesararnir Ladeja Godina Košir frá Circular Change samtökunum í Slóveníu og Anne Pøhl Enevoldsen frá dönsku matvælastofnuninni munu flytja erindi um innleiðingu hringrásarhagkerfisins í matvælaframleiðslu á alþjóðlega vísu. (sjá nánari uppl. hér)

Einnig verða haldnir örfyrirlestrar og pallborð um afmörkuð efni s.s. nýtingu hráefnis, kolefnisspor og sóun í matvælakeðjunni á Íslandi, framleiðslu sem styður við hringrásarhagkerfið og framtíð matvælaframleiðslu.

Ari Eldjárn mun einnig stíga á stokk á þinginu og fjalla á sinn hátt um hringrásarhagkerfið og þær áskoranir sem þar blasa við okkur í daglegu lífi.

Þingið verður sett klukkan 9:00 og lýkur klukkan 16:00.

Skráning á þingið fer fram hér.

DEILA