Framkvæmdir eru hafnar við aðstöðu fyrir félagsstarf Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar á Torfnesi. Valur Richter, formaður félagsins segir þörfina mikla vegna aukinnar aðsóknar í skotfimi, pílu og bogfimi. Til þessa hefur aðstaðan verið í gám við áhorfendastúkuna á knattspyrnuvellinum en nú verður reist 50 fermetra bygging sem muni hýsa aðstöðuna. Félagið hefur fengið 4 m.kr. styrk frá Ísafjarðarbæ auk stuðnings frá fyrirtækjum en langstærstur hluti kostnaðar kemur frá félagsmönnum í formi vinnuframlags. Valur segir að Ísafjarðarbær muni svo eignast húsnæðið. Hann vonast til þess að unnt verði að steypa húsið upp í vetur og að nýbyggingin verði tekin í notkun næsta sumar.
Myndir: Valur Richter.