Ísafjörður: samið um björgunarskipið Gísla Jóns sem varalóðsbát

Ísafjarðarhöfn. Þangað hjólar skíðafólkið.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að gerður verði samningur til þriggja ára um notkun á björgunarskipinu Gísla Jóns sem lóðsbát til vara fyrir Sturlu Halldórsson. Hilmar Lyngmó hafnarstjóri segir að Sturla Halldórsson sé farinn að eldast og farinn að bila og í sumar þurfti að fá Gísla Jóns til afleysinga í 20 daga. Hann segir það hafa gefist vel, björgunarbátasjóður SVFÍ lagði til bátinn og skipstjóra en höfnin aðra í áhöfn.

Miðað er við að greiða björgunarbátasjóðnum 2,5 m.kr. á ári næstu þrjú ár fyrir afnotin.

Þá samþykkti hafnarstjórn á fundi sínum í vikunni að fella niður hafnargjöld af nýjum björgunarbát björgunarsveitarinnar Sæbjörgu, sem ber nafnið Stella. Bókaði hafnarstjórnin að hún fagnaði komu bátsins til Flateyrar, fyrir aukið öryggi íbúa og sjófarenda á svæðinu.

Hilmar Lyngmó sagðist telja að fjárhæðin væri lág, sem felld verður niður, kannski 10.000 kr. á mánuði.

DEILA