Ísafjarðarbær: tapaði 154 m.kr. vegna afbókana skemmtiferðaskipa

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri.

Hafnasjóður Ísafjarðarbæjar varð af 154 m.kr. tekjum vegna afbókana skemmtiferðaskipa vegna tafa á verklokum framkvæmda við Sundabakka. Er þá tekið saman tekjutap vegna þess að skip hættu alveg við að koma eða þau gátu ekki lagst við hafnarbakka og voru þess í stað við akkeri á Skutulsfirði. Hilmar Lyngmó hafnarstjóri segir sem dæmi að meðalskip með um 3000 farþega borgi um 5 m.kr. fyrir að liggja við Sundabakka og um helming þess fyrir að liggja við akkeri.

Gjöldin sem skemmtiferðaskipin greiða eru hafnargjöld og farþegagjöld. Hafnargjöldin eru tengd stærð skipsins en farþegagjaldið er 249 kr/farþega.

Afbókanirnar voru einkum í maí og júní og svo aftur í september.

Þrátt fyrir afbókanirnar voru tekjur Ísafjarðarhafnar af skemmtiferðaskipum í lok september 132,5 m.kr. umfram áætlun ársins samkvæmt því sem fram kemur í nýlegu minnisblaði fjármálastjóra bæjarins. Í fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir að tekjurnar verði 300 m.kr. af 200 skipakomum. Í fyrra voru tekjurnar 200 m.kr. Samkvæmt þessu verða tekjurnar tvöfalt meiri í ár en þær voru í fyrra eða liðlega 400 m.kr.

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri segir að samkvæmt tillögu að framkvæmdaáætlun hafnarsjóðs fyrir næsta ár ljúki framkvæmdum við Sundabakka næsta haust og auk þess verði gert ráð fyrir að stækka athafnasvæði fyrir hvalaskoðunarbáta. Tvö fyrirtæki sem flytji ferðamenn séu að stækka við sig og fá stærri báta.

DEILA