Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri svarar því til þegar hún var innt eftir nánari málavöxtum um starfslok Marzellíusar Sveinbjörnssonar umsjónarmanns fasteigna að hún muni ekki tjá sig frekar um starfslokin en hún hafi þegar gert í Bæjarins besta. En hún sagði á föstudaginn að talsverðar breytingar hafi orðið á starfsemi Fasteigna Ísafjarðar vegna sölu eigna og því „ekki er lengur talin þörf á fullu stöðugildi starfsmanns. Leiddu þessar breytingar til þess að Marzellíus Sveinbjörnsson lauk störfum hjá sveitarfélaginu 31. okt.“
Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs sagði sama dag að starfið hefði verið lagt niður.
Marzellíus Sveinbjörnsson segist kjósa að tjá sig ekki um starfslokin að sinni.
Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árin 2021 til 2023 eru laun og tengd gjöld hjá Fasteignum Ísafjarðarbæjar ehf 11,2 – 11,9 m.kr. en í framlagðri tilllögu fyrir 2024 er þessi liður 2,4 mkr. Lækkunin er um 9 m.kr.
Spurningin sem eftir stendur er þessi: hvað gerðist. Vitað er að starfið var lagt niður og að ekki var lengur talin þörf á fullu stöðugildi starfsmanns. Það leiddi svo til þess að umsjónarmaðurinn lauk störfum.
Arna Lára Jónsdóttir var spurð að því hvort rétt væri að Marzellíusi hafi verið boðið hálft starf sem hann hafi samþykkt eða hvort honum hafi verið sagt upp. Svar bæjarstjórans var að tjá sig ekki frekar um málið.
Miðað við fengin svör er líklegt að fyrst hafi umsjónarmanni verið boðin hálf staða og síðan í framhaldinu hafi af einhverjum ástæðum starfið verið lagt niður. Þá er spurningin samþykkti Marzellíus hálft starf og ef svo er hvers vegna var starfið lagt niður.
Svör við þessum spurningum fást ekki að sinni.
-k