Ísafjarðarbær: hafnar niðurfellingu gatnagerðargjalda á Suðureyri

Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Útgerðarfélagið Vonin ehf á Suðureyri hefur fengið úthlutað lóðunum Stefnisgötu 8 og Stefnisgötu 10 og er ætlunin að reisa iðnaðarhús á lóðunum undir bátasmiðju með áherslu á trefjaplast- smíði og viðgerðir. Álögð gatnagerðargjöld m.v. vísitölu í nóvember 2023 eru kr. 4.186.797 kr.

Fyrirtækið hefur óskað eftir niðurfellingu gatnagerðargjalda fyrir lóðirnar og vísar til þess að Ísafjarðarbær auglýsti tímabundna niðurfellingu gatnagerðagjalda ýmissa lóða í sveitarfélaginu og að sú auglýsing sé enn í gildi.

Í auglýsingu Ísafjarðarbæjar komi fram að þetta eigi við um þegar byggðar götur. Stefnisgata er einmitt ein slík gata, segir í erindi útgerðarfélagsins, auk þess sem það sem eftir stendur af fyrri byggingu muni valda húsbyggjenda mikinn kostnað. Þ.e. að fjarlægja leyfar gamla Ísvers. Plata þess húss, sökklar o.fl. standi einmitt enn á lóðinni þó húsið hafi verið rifið fyrir löngu síðan.

Í gögnum sem lögð voru fyrir bæjarráð kemur fram að í nóvember 2021 hafi bæjarstjórn samþykkt 2 m.kr. afslátt af gatnagerðargjöldum vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á Hafnarstræti 21 á Þingeyri með þeim rökum að Þingeyri telst vera kalt svæði, tekur þátt í verkefninu Brothættar byggðir og að lítið hafi verið byggt af atvinnuhúsnæði í þorpinu.

Bæjarráð ákvað að synja erindinu og segir í bókun að „Ekki eru fordæmi fyrir niðurfellingu eða afslætti af gatnagerðargjöldum á Suðureyri vegna iðnaðar- og atvinnuhúsnæðis, og telur bæjarráð ekki forsendur fyrir niðurfellingu eins og gert var á Þingeyri, en þá hafði Þingeyri stöðu sem Brothætt byggð.“

DEILA