Ísafjarðarbær: framlengir samning við Kómedíuleikhúsið

Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins.

Menningarmálanefnd leggur til við bæjarstjórn að samþykkja framlengingu samkomulags um afnot af húsnæði Ísafjarðarbæjar að Vallargötu 3 á Þingeyri. Gildandi samningur rennur út um áramótin og er lagt til að að hann gildi áfram út árið 2025.

Snýr samningurinn að endurgjaldslausum afnotum af meginhluta hæðarinnar, þ.e. öllu nema stóra bókaherberginu. Slökkvistöð er á neðri hæð.

Kómedíuleikhúsið er með hljóðver í húsinu, nýta það til æfinga og reglulegra námskeiðshalda, og hefur óskað eftir áframhaldandi afnotum.

Í minnisblaði bæjarritara kemur fram að í samningnum séu engar skyldur á Ísafjarðarbæ til sérstaks viðhalds eða endurbóta, en sveitarfélagið greiðir þó allan kostnað af húsinu, s.s. fasteignagjöld, tryggingar, rafmagn og hita. Heildarkostnaður af húsinu hefur verið um 420-450 þús. árlega vegna þessara liða (miðast við allt húsið), en viðhald og annar breytilegur kostnaður frá 80.000-3.600.000 kr. árlega, eftir viðhaldsþörf hverju sinni.

Nefndin leggur einnig til að samkomulagið verði hluti af samstarfssamningi við Kómedíuleikhúsið, sem gildir út árið 2025.

DEILA