Ísafjarðarbær: fasteignaskattur lækki um 0,02%

Frá Ísafirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til að fasteignaskattur verði óbreyttur frá yfirstandandi ári nema að skatturinn lækki á íbúðarhúsnæði úr 0,56% í 0,54% af mati húss og lóðar. Fasteignaskattur á B- og C- húsnæði verði áfram 1,65% af hús- og lóðamati. Lóðarleiga verði óbreytt 1,5% af lóðamati vegna íbúðarhúsnæðis, og 3% af lóðamati vegna annarra fasteigna.

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs til bæjarráðs að lækkun á álagningu um 0,01% á fasteignaskatti hefur áhrif til lækkunar um 6.1 mkr. og auk þess lækka framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til jöfnunar tekna sveitarfélaga af fasteignaskatti um 3,3 m.kr.

Því má ætla að lækkunin um 0,02% á íbúðarhúsnæði lækki tekjur sveitarfélagsins um 18,8 m.kr.

Fram kemur að tekjur af fasteignaskattinum og lóðarleigunni verði á næsta ári miðað við þessar forsendur 330,5 m.kr. auk framlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem verði 348,2 m.kr. Samtls verði tekjurnar 678,7 m.kr.

Heildarfasteignamat í Ísafjarðarbæ árið 2024 er 76.600 m.kr. en var kr. 66.941 m.kr. árið 2023, sem er
14,4% hækkun. Frá árinu 2020 hefur fasteignamat hækkað um 82%.

Fasteignamatið hækkar mest á milli ára á Þingeyri eða um 29,7%, á Flateyri um 26,3% og í Hnífsdal um 23,4%. Á Ísafirði hækkar matið um 13,7% í eldri byggð og um 10,6% í nýrri byggð. Á Suðureyri er hækkunin aðeins 5,9%. Á Hornströndum hækkar matið um 15,4%.

DEILA