Í gær reyndist erfitt að fá bókaðan tíma á Ísafirði hjá lækni við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta fengust þau svör að ekki væri hægt að fá bókaðan tíma en boðið var upp á viðtal við hjúkrunarfræðing.
Hildur Elísabet Pétursdóttir, starfandi forstjóri stofnunarinnar staðfesti að vegna skyndilegra veikinda læknis hafi þurft að loka fyrir tímabókanir meðan verið væri að finna lækna í hans stað. Hún segir að það hafi nú verið gert og vandamálið því sem betur fer úr sögunni.