Háafell : 670 m.kr. upp úr einni kví

Frá eldiskví í Vigurál. Mynd: Háafell.

Lokið er slátrun upp úr fyrstu laxeldiskví Háafells í Vigurál. Greint er frá því að vel hafi gengið að slátra í Drimlu, nýja sláturhúsinu í Bolungavík. Að sögn Gauta Geirssonar, framkvæmdastjóra voru um 120.000 fiskar í kvínni og viktaði framleiðslan um 670 tonn. Hann sagði að afföllin hefðu verið mjög lítil sem gerir uppskeruna betri.

Verðmætin sem komu upp úr kvínni eru um 670 m.kr. Reikna má með tveimur uppskerum á hverjum þremur árum. Það gerir um 450 m.kr. á ári að meðaltali upp úr einni kví.

lítil afföll – engin lús – góð meðalþyngd og gæði

Birtar eru nokkrar lykiltölur á facebook síðu fyrirtækisins:

– Tími í sjó: Rúmir 17 mánuðir

– Afföll: 2.3%

– Fóðurnýtingarhlutfall: 1.16

Kynþroski: <0.14%

– Meðalþyngd í lok eldis: 5.5 kíló

– Hluti “superior” fisks við slátrun: 98%

Eins og sjá má tókst afar vel til. meðalþyngd er mjög góð, eldistími í sjó innan við hálft annað ár, afföll sáralítil og kynþroski nánast enginn. Nær allur fiskurinn flokkaðist í besta verðflokk og fóðurnýting var mjög góð, sem þýðir að hvert 1,16 kg af fóðri skilaði 1 kg af fiski.

Til viðbótar þessu má geta þess að engin laxalús er að plaga laxinn í Djúpinu.

Laxinn er fluttur út heill og slægður og fæst mjög gott verð fyrir hann á erlendum mörkuðum.

Meðalverð á þessu ári er um 1.000 kr/kg sem þýðir að fyrir hver 1.000 tonn fæst um einn milljarður króna.

DEILA