frv. á Alþingi: Gistináttaskattur á skemmtiferðaskipin

Skemmtiferðaskip á Ísafirði.

Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til laga um gistináttaskatt á farþega með skemmtiferðaskipum. Er það fjármálaráðherra sem leggur málið fram. Skatturinn rennur í ríkissjóð.

Á breytingin að taka gildi um áramótin. Greiða á fyrir leigu á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring 300 kr. fyrir hvern einstakling.

Greiða skal gistináttaskatt fyrir gistiaðstöðu á:
a. gististað sem hefur rekstrarleyfi í flokki II–IV, sbr. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007,
b. tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi,
c. skemmtiferðaskipi á meðan það dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins, sem er innan 12 mílna landhelgi.

Gistináttagjald hefur verið greitt fyrir a og b liðina en nú bætist við c liðurinn, skemmtiferðaskipin. Eki verður innheimt gjald fyrir áhöfn skipsins.

Sala sem fer fram á þessu ári fyrir 2024 er undanþegin gistináttagjaldinu ef reikningur er gefinn út fyrir áramót.

Í greinrgerð ráðherra sem fylgir með frumvarpinu segir að talið sér nauðsynlegt og rétt, m.a. út frá sanngirnis- og samkeppnissjónarmiðum gagnvart hótel- og gistiþjónustu hér á landi, að farþegar sem gista um borð í skemmtiferðaskipum innan tollsvæðis ríkisins greiði einnig gistináttaskatt. Þá er jafnframt gerð sú breyting að greiða skuli gistináttaskatt af hverri seldri gistináttaeiningu fyrir hvern dvalargest, að undanskildum börnum undir 18 ára aldri.
„Breytingin er í samræmi við framkvæmdina í flestum öðrum löndum Evrópu þar sem gistináttaskattur er innheimtur. Þar er skatturinn greiddur af hálfu einstaklings vegna gistiaðstöðu sem hann hefur til ráðstöfunar í allt að sólarhring.“

skoða gjaldtöku til framtíðar

Þá segir ráðherrann að vinna standi yfir með hagaðilum um gjaldtöku í ferðaþjónustu til framtíðar. „Verið er að skoða og leggja mat á ólíkar leiðir að breyttu gjalda- og skattaumhverfi sem gæti orðið megintekjustofn gjaldtöku í ferðaþjónustu í stað gistináttaskatts. Meðal annars er til skoðunar innleiðing á gjaldi sem einnig hefði þann tilgang að stýra álagi á ferðamannastöðum.“

1,6 milljarðar króna í auknar tekjur

Um tekjuáhrifin af lagabreytingunni segir að ætla megi að hún leiði til alls 1,8 milljarða kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð, þar af 1,6 milljarða kr. í gistináttaskatt og 0,2 milljarða kr. í hliðaráhrif á virðisaukaskatt þar sem hann er lagður á söluverð gistingar að gistináttaskatti meðtöldum. Gistináttaskattur mun miðað við þessar forsendur skila alls 3,1 milljarði kr. í tekjur árið 2024.

Vegna covidfaraldursins var samþykkt með lögum að fella niður gjaldið frá 1. apríl 2020 til loka árs 2023. Hafa því t.d. hótel og aðrir gististaðir verið undanþegin gjaldinu nú á þriðja ár.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, sem er til meðferðar á Alþingi, voru þessi áform kynnt og þar sagði að breytingin myndi skila 2,7 milljörðum króna í viðbótartekjur við þær 1.500 m.kr. sem gistináttarskatturinn gæfi að óbreyttum lögum eða samtals 4.175 m.kr.

Mat á tekjunum hefur því lækkað um milljarð króna.

DEILA