Fine Foods og 425 ehf fá styrk frá Högum

Jamie Lee tekur við styrknum úr hendi Finns Oddssonar. Mynd: Hagar.is

Fyrirtækið Hagar hf veitti á þriðjudaginn 12 fyrirtækjum samtals 15 m.kr. styrk sem eru frumkvöðlar í matvælaframleiðslu. meðal fyrirtækjanna er Fine Foods Islandica sem er í Króksfjarðarnesi í Reykhólahreppi. meðal þeirra sem standa að Fine Foods eru Bergsveinn Reynisson kræklingabóndi með meiru og Jamie Lee nemandi við Háskólasetur Vestfjarða. Fyrirtækið framleiðir vöru úr kræklingi og þangi og styrkurinn er veittur því vegna þess að það er frumkvöðlafyrirtæki sem er fyrst á Íslandi til að framleiða þang (seaweed) og nýta það áfram í þróun á kryddum og öðru sem bragðbætir matinn.  Þangið er framleitt á umhverfisvænan hátt segir í umsögn Haga um styrkveitinguna.

Styrkurinn er veittur frá Uppsprettunni, nýsköpunarsjóði Haga, til að vinna að nýsköpun í matvælaiðnaði og efla íslenska matvælaframleiðslu. Þetta er í þriðja sinn sem Uppsprettan veitir styrki og hefur þátttaka aldrei verið meiri, en á fjórða tug nýsköpunarfyrirtækja sóttu um styrk. Markmiðið er að sem flestar af vörunum sem hlutu styrk verði fáanlegar í hillum verslana Haga innan tíðar.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga: „Við erum sérlega ánægð með þátttökuna í ár sem fór fram úr öllum væntingum, og það fer ekki á milli mála að Uppsprettan er búin að stimpla sig rækilega inn hjá íslenskum frumkvöðlum í matvælaframleiðslu. Okkur bárust margar góðar hugmyndir í ár og okkur hlakkar til að vinna með þessum kraftmiklu frumkvöðlum og hugsjónafólki sem hlutu styrk í ár. Áður en við vitum af verða þessar vörur komnar í hillur verslana  og ég veit matgæðingar hér heima eigi eftir að taka þeim fagnandi.“

Uppfært kl 11.17.

Önfirsk sveppasósa

Meðal styrkhafa er annað vestfirsk fyrirtæki. Það er fyrirtækið 425 ehf á Flateyri sem er frumkvöðlafyrirtæki sem ætlar að þróa úrvals sósublöndu úr villtum vestfirskum sveppum. Þau munu nota bæði lerki- og furusveppi í sínar vörur. Eigendur eru Eyvindur Atli Ásvaldsson og Sæbjörg Gísladóttir.

.

DEILA