Ferjan Baldur: kostar 612 m.kr. á ári

Í umsögn Samgöngufélagsins um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028, sem er til meðferðar á Alþingi, er vakin athygli á því að samkvæmt nýbirtum samningi milli Vegagerðarinnar og Sæferða greiðir Vegagerðin 611.751.900 kr. á ársgrundvelli. Í samningnum er gert ráð fyrir 305 ferðum milli Stykkishólms og Brjánslækjar og 114 í Flatey árlega.

Auk þess er gert ráð fyrir að varið verði 400 m.kr. á árunum 2025-2027 í hafnarframkvæmdir á Brjánslæk. Hlutur ríkissjóðs af því er 60%.

Samgöngufélagið vekur athygli á því að í drögum að jarðgangaáætlun segir Vegagerðin að vegna ferjunnar Baldurs telji stofnunin að jarðgöng um Klettsháls séu ekki mjög brýn í samanburði við aðra jarðgangakosti. Kostnaður við göngin er áætlaður 14,5 milljarðar króna.

„Að öllu þessu athuguðu verður að setja stórt spurningamerki við ferjurekstur um Breiðafjörð i núverandi mynd eftir árið 2027 og þær framkvæmdir við hafnaaðstöðu sem nefndar eru. Telja verður nærtækara að hefja undirbúning að gerð jarðganga undir Klettsháls og nota þá fjármuni eða hluta þeirra sem munu fara I rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs eða áformaðar hafnarframkvæmdir I undirbúning að gerð ganga þessa leið.“

veggjöld og jarðgöng

Segir Samgöngufélagið að ekki sé ólíklegt að umferð um Barðarstrandarsýslu verð fljótlega 500 ökutæki að meðaltali á dag og fari hækkandi með hverju ári, ekki síst vöruflutningabíla. Þá sé ljóst að Breiðafjarðarferjan Baldur annaði ekki nema litlum hluta þessarar umferðar ef á reyndi. En hin nýja ferja rúmar fimm flutningabÍla, 42 fólksbíla og 250 farþega.

Stungið er upp á því til þess að flýta gerð ganganna mætti innheimta veggjöld og „ef þau væru kr. 1.000 á hvert ökutæki sem gera að meðaltali kr. 500.000 á dag gerðu það 182 m.kr. á ári.“


Sýnist þetta vel skoðunarvert, segir Samgöngufélagið, og gera megi ráð fyrir að Samgöngufélagið hlutist til um einhverja könnun á þessu. „Þessi staða ætti a.m.k. að verða til þess að horfið verði frá hugmyndum um smíði nýrrar ferju sem ætlað væri sama hlutverk og núverandi ferju og einnig hlýtur að þurfa að skoða þær hafnarframkvæmdir sem áformaðar eru í þessu ljósi.“

Loks er minnt á örlög ferjunnar Fagraness sem sigldi um Ísafjarðardjúp en þeim siglingum var hætt skömmu eftir að bryggja hafði verið gerð á Arngerðareyri innst i Ísafjarðardjúpi skömmu fyrir aldamót.

Jónas B. Guðmundsson ritar umsögnina f.h. Samgöngufélagsins.

Í umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga kveður við annan tón varðandi Baldur. Þar segir:

„Brýn þörf er að endurhanna hafnir fyrir siglingar ferjunnar Baldurs þar sem þörf verður fyrir ferjusiglingar yfir Breiðafjörð um ófyrirsjáanlega framtíð.“

DEILA