Ferjan Baldur

Í dag er hátíð í Stykkishólmi þegar móttaka fer fram á nýjum Baldri. Skipið var keypt frá Noregi, þótt ekki sé um að ræða nýtt skip uppfyllir skipið þau skilyrði sem leitað var eftir, að það væri búið tveimur aðalvélum og tveimur skrúfum sem eykur öryggi þeirra sem ferðast með ferjunni.

Brúin til Vestfjarða

Ferjusiglingar milli Stykkishólms og Brjánslækjar hafa verið mikilvægur liður í samgöngum fyrir þau svæði sem ferjan tengir saman, enda oft kölluð brúin til Vestfjarða. Hlutverk ferjunnar er og hefur verið að þjóna byggðinni á sunnanverðum Vestfjörðum og í Breiðafjarðareyjum en ferðamenn nýta sér einnig ferjuna.

Uppbygging á vegum á sunnanverðum Vestfjörðum er í framkvæmd og munu Vestfirðingar loksins eiga nútíma vegi um þjóðveg nr. 60 innan fárra missera. Það eru þó alltaf farartálmar sem eru erfiðir eins og Klettsháls, sem getur verið fyrirstaða og lokast oft í vetrarveðrum.

Horft til framtíðar

Varðandi ferjusiglingar milli Vestfjarða og Stykkishólms þarf að horfa til framtíðar. Hvað sem okkur kann að finnast með ferjuna sem framtíðarfararmáta er hennar þörf við núverandi aðstæður. Vegagerðin hefur hafið undirbúning á því að smíðuð verði ný ferja sem hentar þessari leið, skip sem hentar til verkefnisins og sem þarf að hafa leyfi á B og C hafsvæði. Gamli Baldur nýttist áður sem varaskip fyrir Herjólf en í dag er ekkert skip til á Íslandi sem getur leyst það af, þar sem núverandi Baldur hentar einungis á C hafsvæði og Breiðafjörður flokkast undir það, en sjóleiðin frá landi til Vestmannaeyja flokkast sem B svæði. Það er því full ástæða til að halda áfram undirbúningi að smíðum á nýju skipi sem kemur til með að þjóna ferjusiglingum á Breiðafirði og  sem varaferja fyrir Vestmanneyjar.

Saga ferjusiglinga yfir Breiðafjörð er löng og alltaf hefur ferjuskipið borið nafnið Baldur og má því ætla að gifta fylgi góðu nafni og er það sannarlega ósk um að svo verði áfram.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

DEILA