Fasteignamat viðmiðunareignar lægst á Vestfjörðum

Tunguhverfi á Isafirði.

Byggðastofnun fær Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) til að reikna út fasteignamat á sömu viðmiðunarfasteigninni í þéttbýli um allt land. Til eru sambærileg gögn frá árinu 2010 fyrir 31 matssvæði.

Matssvæðin eru nú 103 í 50 sveitarfélögum, þar af 27 á höfuðborgarsvæðinu og 76 utan þess.

Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 476 m3. Stærð lóðar er 808 fermetrar.

Hæst er fasteignamatið á höfuðborgarsvæðinu 98,7 m.kr. en lægst á Vetsfjörðum 30,6 m.kr. Þó munar litlu á Vestfjörðum og Austurlandi þar sem matið er 31,6 m.kr. og 36,6 m.kr. á Norðurlandi vestra.

Hækkunin frá fyrra ári var hins vegar næst mest á landinu á Vestfjörðum eða 24,6%. Hún var aðeins meiri á Suðurlandi 28,3%.

Hæst var matið á viðmiðunarhúsinu í Þingholtunum í Reykjavík 142 m.kr. og þar af var lóðaverðið 41 m.kr. Á Vestfjörðum reyndist matið hæst vera á Ísafirði 54 m.kr. Næst komu Bolungavík með 34 m.kr., Patreksfjörður 32 m.kr., Hnífsdalur 31 m.kr. Milli 20 og 30 m.kr. voru Bíldudalur, Tálknafjörður, Súðavík, Hólmavík, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri var lægst með 20 m.kr.


DEILA