Stefnt er að því að setja á laggirnar átta starfsstöðvar á landsvísu sem munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins.
Horft er til samlegðaráhrifa við svæðisskipt verkefni ríkis og sveitarfélaga s.s. skólaþjónustu, farsæld barna og æskulýðsstarfi.
Markmiðið er að efla íþróttahéruð með því að koma á fót sameiginlegum starfsstöðvum sem hafa það hlutverk að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti.
Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og starfsstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni. Það mun styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og þannig jafna tækifæri barna óháð aðstæðum og búsetu sem og að efla þjónustu á viðkomandi svæði. Breytingin nær til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land.
Mennta- og barnamálaráðherra lýsir yfir vilja til þess að styðja við verkefnið með 200 m.kr. árlegu framlagi til ÍSÍ og UMFÍ til næstu tveggja ára, til að byrja með.
Framlaginu er ætlað að styðja við þessa uppbyggingu um allt land og meðal annars koma á fót hvatasjóði. Hlutverk hvatasjóðsins er að stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttum, með áherslu á börn með fötlun og börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.