Dagar við Dýrafjörð

DAGAR VIÐ DÝRAFJÖRÐ er minningabók. Í áttatíu þáttum og með ríflega eitt hundrað teiknimyndum rifjar höfundur upp umhverfi og atvik úr uppvexti sínum þar vestra um miðja síðustu öld. Margt var þá að breytast: Dagleg störf, vinnubrögð og viðhorf. Byggðin við Dýrafjörð var á hverfanda hveli rétt eins og í öðrum byggðarlögum. Margt af því sem fornar rætur átti tók að þoka fyrir ýmsu nýju og framandi – en líka spennandi í augum unglingsins. Sumir þáttanna eru þjóðháttakenndar lýsingar, aðrir flokkast fremur til persónulegra minninga og stemninga. Flestir þáttanna eru kryddaðir teikningum höfundar. Um tilgang bókarinnar segir í formála hennar:

Ég vona að þú hafir gagn og gaman af verkinu. Mér þætti best ef við lestur þess kviknar hjá þér hugsun um þína eigin aðstöðu, þitt æskuumhverfi. Hver á sína ungdómsveröld. Geyma sambærilega drætti þótt ólíkar séu. Saman móta þær mynd af fjölbreyttu og síkviku samfélagi, sem á margar og misdjúpar rætur. Til rótanna sækjum við næringu og þrótt – svo og festu sem nauðsynleg er í hverfulum heimi.

Höfundurinn, BJARNI GUÐMUNDSSON, er fæddur og upp alinn á Kirkjubóli í Dýrafirði. Að loknu framhaldsnámi var hann lengi kennari við Bændaskólann á Hvanneyri og síðan prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands til opinberra starfsloka. Samhliða kennslu stundaði Bjarni rannsóknir einkum á verkun fóðurs og tækni við hana og miðlaði bændum fróðleik um fóðurverkun um langt árabil með greinaskrifum og fyrirlestrum á bændafundum víða um land. Bjarni hefur skrifað bækur um búfræði og búnaðarsögu, m.a. um verkhætti við bústörf svo sem jarðyrkju og heyskap á tuttugustu öld og breytingar á þeim.    

Höfundurinn gefur bókina út sjálfur og er hún fáanleg hjá honum á Hvanneyri á meðan upplag endist.

Útgáfa bókarinnar DAGAR VIÐ DÝRAFJÖRÐ var formlega kynnt í Samkomuhúsinu í Haukadal í Dýrafirði þann 20. júlí sl. í samstarfi við Komedíuleikhúsið sem þar hefur höfuðstöðvar sínar.  Nánari upplýsingar um bókina veitir Bjarni Guðmundsson, Túngötu 5, 311 Borgarnes, s. 894 6368, og bjarnig@lbhi.is

DEILA