Bolungavíkurhöfn: 2.635 tonn í október – meirihlutinn eldislax

Novatrans í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað 2.635 tonnum af bolfiski í Bolungavíkurhöfn í síðasta mánuði. Eldislax var þar af 1.528 tonn og annar bolfiskur 1.107 tonn.

Eldislaxinn var bæði frá Arctic Fish og Háafelli og var landað til vinnslu í Drimlu, nýja sláturhúsi Arctic Fish í Bolungavík. Það var flutningaskipið Novatrans sem sótti fiskinn í kvíarnar.

Togarinn Sirrý ÍS var ekki á veiðum í mánuðinum. Dragnótabátarnir Ásdís ÍS,131 tonn í 14 róðrum og Þorlákur ÍS, 83 tonn í 8 veiðiferðum öfluðu ágætlega. Línubátarnir tveir fóru báðir 24 róðra, sem verður að teljast býsna gott úthald. Jónína Brynja ÍS og Fríða Dagmar ÍS lönduðu hvor um sig 242 tonnum. Þriðji línubáturinn var Indriði Kristins BA sem var með 79 tonn í 8 róðrum.

Togarinn Jóhanna Gísla GK landaði einu sinni í mánuðinum 66 tonnum. Snæfellingarnir voru á dragnót, Magnús SH landaði 104 tonnum, Saxhanar SH 75 tonnum, Rifsarinn SH 41 tonni og Bárður SH 13 tonnum.

Sjöfn SH 4 var á ígulkerjaveiðum og landaði 28 tonnum í 7 veiðiferðum.

DEILA