Bolungavík: vatnið í lagi

Vatnsveitan í Bolungavík verður í Hlíðardal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Niðurstaða úr vatnssýni sem Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða tók á s.l. mánudaginn sýnir að vatnið stenst allar kröfur samkvæmt skv. neysluvatnsreglugerð nr 536/2001.

Varúðarráðstöfun um suðu vatns er ekki lengur þörf.

Þetta kemur fram í frétt um málið á vefsíðu kaupstaðarins.

Þar segir að starfsfólk Bolungarvíkurkaupstaðs hafi yfirfarið kerfi vatnsveitunnar á sl. föstudag og eru allar líkur á að vatnið hafi verið í lagi frá þeim tíma.

„Því miður er staðan þannig í Bolungarvík að vatnsveitan nýtir yfirborðvatn til að veita vatni til íbúa. Vatnið er hreinsað í hreinsistöð við Meiri Hlíð fyrir ofan bæinn og geislað með geislatækjum áður en því er veitt inná kerfið. Þetta kerfi er í eðli sýnu viðkvæmt og fyrir kemur að vatnið stenst ekki kröfur, sérstaklega þegar kerfið er undir miklu álagi vegna rigninga, leysingja eða nauðsynlegra viðgerða, t.d. þegar vatnsrör fara í sundur.“

Ný vatnsveita í byggingu

Sveitarfélagið ákvað fyrir þremur árum að hefja undirbúning fyrir nýja vatnsveitu. Sumarið 2019 og 2020 var borað eftir vatni víðsvegar um Bolungarvík með ágætum árangri. Á þeim grundvelli var farið í að hanna nýja vatnsveitu þar sem gengið er út frá forðatönkum til að safna borholuvatni allan sólahringinn sem hægt væri síðan að nota til að veita vatni til bæjarbúa. Jafnframt er gert ráð fyrir nýrri hreinsistöð sem er áföst forðatönkunum. Bæði til þess að hafa tvöfallt öryggi, en jafnframt til að geta brugðist við ef borholuvatnið dugar ekki og nýta þarf yfirborðsvatn til skemmri tíma til að anna mikilli vatnsþörf.

„Framkvæmdir við nýja vatnsveitu hófust sl. haust og ganga framkvæmdir vel. Búist er við að heildarkostnaður við nýja vatnsveitu verði yfir 300m.kr. sem er gríðarleg fjárfesting fyrir sveitarfélagið og stærsta innviðafjárfesting í áratugi.

Stefnt er að því að taka fyrsta áfangi í notkun um mitt næsta ár.

Þegar nýir forðatankar og ný hreinsistöð verður tilbúin má búast við að halda þurfi áfram að bora eftir köldu vatni til að tryggja að hægt verði að uppfylla vatnsþörf til framtíðar með vatni úr borholum og vandamál í vatnsveitu Bolungarvíkur verði þannig úr sögunni.

Þangað til verður Bolungarvíkurkaupstaður í miklu og góðu samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða til að tryggja öryggi neysluvatns í Bolungarvík eins og kostur er.“

DEILA