Bann við fiskeldi: 6 umsagnir bárust

Kvíar í Arnarfirði. Fiskeldið greiðir hærra gjald í ríkissjóð en greitt er af þorski.

Sex umsagnir bárust um tillögu sjö þingmanna um bann við fiskeldi í opnum sjókvíum en umsagnarfrestur er liðinn. Sendar var beiðni til 22 aðila um umsögn og svöruðu 5 þeirra og eru allir andvígur eldinu og því sammála þingmálinu. Ein umsögn barst frá aðila sem ekki var beðinn um umsögn, en heimilt er hverjum sem er að senda inn umsögn um þingmál ótilkvaddur.

Þeir fimm umsagnaraðilar sem styðja þingmálið eru Dýraverndunarsamband Íslands, Landssamband veiðifélaga, NASF, verndarsjóður villtra laxastofna, íslenski náttúruverndarsjóðurinn – icelandic wildlife fund og náttúruverndarfélagið laxinn lifir.

Í umsögn þess síðastnefnda segir að tillagan sé „til varnar stórkostlegri hættu sem nú steðjar að náttúru landsins og auðlindum. Hættu sem byrjuð er að raungerast. Við getum ekki tekið mark á norsku auðfyrirtækjunum sem hafa fyllt Vestfirði og Austfirði með norskum eldislaxi, sem er á góðri leið að útrýma íslenskum villtum laxastofnum.“

Þá segir að engar mótvægislausnir séu til sem stöðva strok laxa úr sjókvíum eða stöðva göngu eldislaxa í veiðiárnar, svo að forðast megi erfðablöndun við villta laxastofna. Mótvægislausnir búi aðeins til falskt öryggi og skálkaskjól.

Í umsögn íslenska náttúruverndarsjóðsins segir að það sé hrein aðför að villtum laxi og þeim vistkerfum sem hann lifir í að leyfa sjókvíaeldi á Íslandi, og sérstaklega að auka við það. Það sé löngu orðið Ijóst að það voru mistök að leyfa þennan mengandi iðnað hér á landi. Þó sé hægt er að viðurkenna mistökin og reyna að snúa þeim við. Það sé afar mikilvægt að grípa í taumana hér og nú, áður en það verður of seint.

Landssamband veiðifélaga segir í sinni umsögn að erfðablöndun sé hafin og að hún sé óafturkræfur skaði sem engar mótvægisaðgerðir geti komið í veg fyrir.

„Því er ljóst að sjókvíaeldi verður banabiti íslenskra laxastofna verði ekkert að gert. Landssambandið krefst þess því enn og aftur að stjórnvöld taki á þessu máli og banni fiskeldi í opnum sjókvíum hér við land.“

Dýraverndunarsamtök Íslands telja að „sjókvíaeldi geti haft skaðleg áhrif á bæði vistkerfi fjarðanna sem og áa víða um land þar sem eldislax sem hefur sloppið gengur upp og makast við villta laxinn. Einnig er ljóst að fiskeldi í opnum sjókvíum bitnar án vafa á velferð dýranna sem er óviðunandi.“

Íslenski náttúruverndarsjóðurinn vill að útgáfa nýrra leyfa fyrir sjókvíaeldi verði stöðvuð strax og sett inn sólarlagsákvæði um gildandi leyfi. Ný leyfi verði ekki veitt nema tryggt verði að enginn fiskur sleppi, að sjúkdómar berist ekki í sjó eða vatnsföll og að úrgangur frá starfseminni verði ekki látinn renna óhreinsaður beint í hafið.

Í síðustu umsögninni kom fram stuðningur við sjókvíaeldið. Hún var frá Kristni H. Gunnarssyni sem gerði athugasemdir við fullyrðingar um engin jákvæð byggðaleg áhrif af laxeldinu sem fram koma í greinargerð flutningsmanna tillögunnar. Tekur hann fyrir fullyrðingar um fækkun íslenskra ríkisborgara á þeim svæðum þar sem fiskeldið er stundað, fækkun kvenna og barna, um sé að ræða erlenda karlkyns ríkisborgara sem sækja sér tímabundna atvinnu á svæðin og að mörg af þessum störfum styðji ekki raunverulega samfélagsuppbyggingu. Lagðar eru fram upplýsingar og gögn um þróun í Vesturbyggð, þar sem áhrifa uppbyggingar í laxeldi gæti einna mest, sýni hið gagstæða, að allar fullyrðingarnar séu rangar. Íbúum hafi fjölgað, m.a. konum og börnum, sérstaklega konum á aldrinum 25-40 ára og byggðarlagið hafi styrkst.

Meðal þeirra sem fengu beiðni um að gefa umsögn, en sendi ekki inn voru opinbera stofnanir, Hafrannsóknarstofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun, samtök atvinnulífsins, samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og samband íslenskra sveitarfélaga.

DEILA