Arnarlax: framlegðin hálfur milljarður kr á þriðja ársfjórðungi

Í afkomuupplýsingum Arnarlax fyrir þriðja ársfjórðung þessa árs kemur fram að tekjur fyrirtækisins voru rúmir 6 milljarðar króna og framlegðin nærri hálfur milljarður króna. Slátrað var 4.040 tonnum af eldisfiski í ársfjórðungnum sem er heldur meira en á sama tíma í fyrra.

Áætlað er að slátra á árinu 17.000 tonnum sem er þúsund tonnum meira en í fyrra. Á næsta ári er hins vegar áætlað að uppskeran verði minni eða 15.000 tonn. Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 26 þúsund tonnum og er stefnt að því að framleiðslan nái því á næstu árum.

Skýringuna á minni framleiðslu á næsta ári má rekja til þess að slátra varð úr kvíum í Tálknafirði vegna lúsaágangs fiski sem hefði verið í sláturstærð á næsta ári. Vegna þess verða færð til gjalda á næsta ársfjórðungi 5 – 6 milljónir evra sem er um 760 – 910 m. kr.

Arnarlax er með tvær umsóknir um ný framleiðsluleyfi ,10 þúsund tonna umsókn í Ísafjarðardjúpi og 4.500 tonna umsókn í Arnarfirði.

Tilkynnt var á laugardaginn að Kjartan Ólafsson, stjórnarmaður hefði selt 450.000 hluti í félaginu fyrir rúmar 84 milljónir norskra króna eða um milljarð íslenskra króna. Kaupandi var SalMar í Noregi. Um er að ræða um 1% af hlutafé í félaginu.

DEILA