Á vefsíðunni skipamyndir.com er að finna mikið af myndum af skipum meðal annars þessa sem hér fylgir af Fjólu BA 150 sem var smíðuð árið 1971 hjá Trésmiðju Austurlands hf. á Fáskrúðsfirði.
Báturinn er 28 brl. að stærð og átti í fyrstu heimahöfn á Bíldudal.
Aðrar upplýsingar um bátinn eru af vefsíðunni aba.is
Báturinn var smíðaður fyrir Hólmaröst hf. Bíldudal og Erlend Magnússon, Reykjavík sem áttu hann í tvö ár.
Að sögn kunnugra var báturinn að mestu notaður, þessi tvö ár sem hann var á Bíldudal, til að flytja Bíldudals grænar baunir til höfuðborgarinnar.
Báturinn hefur alltaf borið nafnið Fjóla en með mismunandi einkennisstöfum þó.
Frá árinu 1973 hét báturinn Fjóla ÞH-182, Þórshöfn.
Frá árinu 1974 hét hann Fjóla BA-150, Bíldudal.
Frá árinu 1980 hét hann Fjóla BA-150, Patreksfirði.
Frá árinu 2005 hét hann Fjóla SH-808, Stykkishólmi.
Frá árinu 2008 hét hann Fjóla SH-55, Grundarfirði.
Frá árinu 2009 hét báturinn Fjóla BA-150, Reykhólum og var í eigu Styrju ehf. sem notaði hann til þjónustu við þangskurðarmenn á Breiðafirði.
Í ágúst 2015 eignaðist Selló hf. Akureyri bátinn en forsvarsmaður fyrirtækisins er Lárus H. List, myndlistamaður og áhugamaður um varðveislu eikarbáta.
Lárus sigldi bátnum frá Breiðafirði til Akureyrar þar sem einkennisstafirnir EA-35 komu á hann.
Báturinn heitir frá þessum tíma Fjóla EA-35 Akureyri og heitir svo enn árið 2023.
Sú kvöð eða öllu heldur beiðni fylgdi bátnum er hann sigldi frá Reykhólum til Akureyrar að nafnið Fjóla fylgdi honum um ókomin ár.
Í júní 2023 keypti Bjarmi Arnfjörð Sigurgarðarsson, Akureyri bátinn af Lárusi List og er ekki annað vitað en að bátnum verði gert eitthvað til góða og hann notaður sem skemmtibátur.