Vegagerðin: hyggst gera útsýnisplan við Þingeyri

Vegagerðin hyggst gera útsýnisplan á vegi 622 í Dýrafirði, rétt innan við ristarhliðið, innan við Þingeyri. Hefur verið sótt um leyfi til efnistöku allt að 1000 rúmmetrum úr áreyrum Sandaár sem nota á í planið.

Ofangreind framkvæmd er öryggisaðgerð til að koma ferðamönnum af veginum, segir i umsögn Vegagerðarinnar, þar sem algengt er að ferðamenn stoppi þarna fyrirvaralaust til að njóta útsýnis og taka myndir sem skapar mikla hættu fyrir aðra ökumenn. Áætlað er að fara í efnistökuna á þessu ári um leið og öll leyfi og umsagnir hafa borist.

Ísafjarðarbær er landeigandi öðru megin ár og samþykki landeiganda hinum megin liggur fyrir.

Sandaá í Dýrafirði er 10,5 km að lengd frá upptökum til sjávar og er ós árinnar við Þingeyrarflugvöll
skammt vestur af Þingeyri.

Þá segir að fyrirhuguð efnistaka sé tiltölulega lítil að umfangi og vatnasvæðið virðist lítið nýtt af laxfiskum og engir hagsmunir vegna veiðinýtingar eru til staðar svo vitað sé. Ef rétt er að staðið er ekki að sjá að umræddar framkvæmdir hafi umtalsverð áhrif á lífríki Sandár.

Skipulags- og mannvirkjanefnd hefur heimilað Vegagerðinni efnistöku í landi Ísafjarðarbæjar í Sandaá og leggur til við bæjarstjórn að heimila útgáfu framkvæmdaleyfis.

DEILA