ÚUA: vísaði frá kæru vegna Mjólkárlínu 2

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál vísaði frá í síðasta mánuði kæru sem nefndinni barst um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2.

Ísafjarðarbær hafði samþykkt breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins þar sem heimilað var að leggja jarðstreng frá Mjólká að Hrafnseyri og þaðan með sæstreng yfir Arnarfjörð í átt að Bíldudal. 

Kærendur voru íbúi í Ísafjarðarbæ, og 2 handhafar rækjuveiðiheimilda í Arnarfirði. Töldu þeir breytinuna ganga gegn ákvæðum laga um meðalhóf. Ekki hafi allir valkostir um lagnaleið yfir Arnarfjörð verið metnir. Þrír aðrir möguleikar um lagnaleið séu til staðar sem hafi minni áhrif á aðra nýtingu fjarðarins og væru sennilega álíka góðir kostir og sá sem Landsnet hafi kynnt, en þeir hafi ekki verið skoðaðir í valkostagreiningu.  Fyrirhuguð lagnaleið muni skerða mikilvægasta veiðisvæði rækjusjómanna í firðinum um a.m.k. 11 km2 en ef strengurinn yrði lagði samhliða öðrum af þeim ljósleiðurum sem nú þveri fjörðinn yrði skerðingin mun minni.

Úrskurðarnefndin bendir á að breyting á aðalskipulagi sé háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og bresti því úrskurðarnefndina vald til þess að taka þá ákvörðun til endurskoðunar.

DEILA