Torfnesvöllur: Keyrt og mokað ehf bauð lægst

Íþróttavöllurinn á Torfnesi og stúkan til vinstri.

Fjögur tilboð bárust í jarðvinnu og lagnir á knattspyrnuvelli á Torfnesi. Keyrt og mokað ehf var með lægsta tilboðið 68,5 m.kr. Búaðstoð ehf bauð 75,9 m.kr., Þotan ehf 77,9 m.kr. og Fagurverk bauð 139,9 m.kr.

Kostnaðaráætlun var 65,1 m.kr.

Framkvæmdin felur í sér að fjarlægja náttúrugras ásamt lífrænu undirlagi þess, endurbæta undirlag með burðarhæfri fyllingu, lagningu fráveitu- og vatnslagna, ídráttarröra fyrir rafstrengi, uppsetningu girðingar og fullnaðarfrágangi yfirborðs undirbyggingar undir gervigras.

Fram kemur í minnisblaði frá Verkís að heildarkostnaður fyrir verkið verði líklega 232 m.kr. þar af verði 128 m.kr. á þessu ári og 104 m.kr. á því næsta.

Bæjarráðið samþykkti á fundi sínum í morgun að samið verði við Keyrt og mokað ehf. vegna verksins „Jarðvinna og lagnir, Torfnes Aðalvöllur,“ á grundvelli tilboðs þess að fjárhæð kr. 68.534.850.

DEILA