Þorskafjarðarbrú opnuð á morgun

Vegagerðin mun opna hina nýju brú yfir Þorskafjörð á morgun kl 14. Er það átta mánuðum á undan áætlun.

KLippt verður á borða á brúnni og Innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson og Bergþóra Þorkelsdóttir, Vegamálastjóri flytja ávörp. Að því loknu fer Jóhanna Ösp Einarsdóttir formaður Fjórðungssamband Vestfirðinga ríðandi yfir brúna með fjölskyldu sinni.

Nýja brúin er 260 metra löng og tvíbreið, staðsteypt, eftirspennt bitabrú í sex höfum. Auk hennar voru gerðar vegfyllingar á 2,7 km kafla. Verklok voru áætluð í lok júní 2024 og er framkvæmdin því langt á undan áætlun. 

Með nýrri brú leggst af um 10 km kafli á núverandi Vestfjarðarvegi ásamt einbreiðri brú á Þorskafjarðará frá árinu 1981. Framkvæmdirnar eru hluti af stærra verkefni í Gufudalssveit sem er vegagerð um Teigsskóg ásamt þverunum á Djúpafirði og Gufufirði. Tengd verk sem einnig er áætlað að ljúki á þessu ári eru:

Tilboð í verkið voru opnuð 16. febrúar 2021. Suðurverk bauð rúmar 2.236 m.kr. sem var 107,6 prósent af áætluðum verktakakostnaði. Skrifað var undir verksamning við Suðurverk 8. apríl  2021. Framkvæmdir hófust í október það sama ár. 

Tilboð í eftirlit með verkinu voru opnuð 19. október 2021. Samið var við Verkís verkfræðistofu. Verkefnastjórn var í höndum framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar og umsjón framkvæmdar hjá Vestursvæði Vegagerðarinnar. Einnig kom fjölmargt starfsfólk Vegagerðarinnar að ýmsum þáttum undirbúnings og einstökum hlutum verksins ásamt ráðgjöfum. 

Með aðalverktakanum Suðurverki störfuðu margir undirverktakar við útboðsverkið: Eykt sá um brúarsmíði, Steypustöðin sá um steypuframleiðslu, Borgarverk sá um klæðingar á vegum og Nortek setti upp vegrið. 

Við lok þessara framkvæmda þarf ekki lengur að aka um Hjallaháls sem er í 336 metra hæð.

Þegar öllum framkvæmdum við Vestfjarðarveg í Gufudalssveit lýkur verður heildarstytting vegarins um 22 km, þ.e. þegar lokið hefur verið við að þvera Gufufjörð og Djúpafjörð. Aksturstími mun styttast um 30 mínútur.

DEILA