Tálknafjörður: opið bréf til sveitarstjóra Ólafs Þórs Ólafssonar

Eysteinseyri í Tálknafirði.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar, allan tíma þinn sem sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, til að fá svör frá þér um fyrir hvað þú rukkar okkur, í nafni sorphirðu, sorpförgunar eða sorpeyðingar, hefur þér ekki gefist tími til að svara. Þú hefur semsagt ekki haft tíma til annars en að “skoða” þetta í 4 ár.

Nú tökum við til þrauta-vara-aðgerða: vonandi að þú getir svarað okkur á opinberum vettvangi. Þér leiðist nú ekki að láta ljós þitt skína í því umhverfi.

Hér eru spurningarnar:

1) Fyrir hvaða þjónustu leggur þú tvöfalt sorphirðugjald fyrir heimilisúrgang og tvöfalt sorphirðugjald vegna endurvinnsluefnis á Eysteinseyri – þegar þú hefur aldrei látið okkur fá tunnur og (þar af leiðandi) aldrei hirt “heimilisúrgang” eða “endurvinnsluefni” frá okkur?

2) Með vísan til hvaða reglna lagðir þú “Umhverfisgjald B” (3. flokkur) á Eysteinseyri, 182.450kr árið 2020 og 187.011kr árið 2021?

Samkvæmt gjaldskrá var þessi flokkur fyrir a)miðlungs veitingastaði (11-15 gestir) b) miðlungs verslun c) áhaldahús d) miðlungs skólar e) skrifstofur og umboðsfyrirtæki með 6-8 starfsmönnum f)stærri hotel eða gistiheimili (fyrir 26 eða fleiri gesti) g) bifreiðaverkstæði, rafverktakar, hjólbarðaverkstæði og önnur iðnfyrirtæki (3-4 starfsmenn) h)miðlungs fiskverkandi (101-500 tonn-ári).

Kveðjur úr Tálknafirði.

Marinó Bjarnason og Freyja Magnúsdóttir

DEILA