Tálknafjörður: fellt að fela sveitarstjóra að framfylgja reglugerð um meðhöndlun úrgangs

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

Jón Ingi Jónsson sveitarstjórnarfulltrúi í Tálknafirði lagði til á fundi sveitarstjórnar síðasta þriðjudag að sveitarstjóra verði falið „að sjá til þess nú þegar að reglugerð um meðhöndlun úrgangs sé framfylgt eins hjá öllum íbúum sveitarfélagsins og sjá til þess að bæði að sorptunnum sé komið fyrir og álagning gjalda sé samkvæmt samþykktum.“

Oddvitinn Lilja Magnúsdóttir taldi sig vanhæfa og vék af fundi og inn kom varafulltrúi. Tillagan var felld með 3 atkvæðum gegn 2.

Flutningsmaðurinn bókaði: „Mér finnst með ólíkindum að meirihluti sveitarstjórnar skuli ekki geta samþykkt að fylgja eftir samþykktum sveitarfélagsins.“

Tilefni tillögunnar er ekki skýrt í fundargerð en 3. okt. birtist á vef Bæjarins besta opið bréf frá íbúum á Eysteinseyri til sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps, Ólafs Þórs Ólafssonar, þar sem hann er krafinn svara við spurningunni: Fyrir hvaða þjónustu leggur þú tvöfalt sorphirðugjald fyrir heimilisúrgang og tvöfalt sorphirðugjald vegna endurvinnsluefnis á Eysteinseyri – þegar þú hefur aldrei látið okkur fá tunnur og (þar af leiðandi) aldrei hirt “heimilisúrgang” eða “endurvinnsluefni” frá okkur.

Segja bréfritarar, ábúendur á Eysteinseyri, í opna bréfinu að ekki hafi fengist svör sveitarstjóra við spurningunni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í 4 ár.

DEILA