Sunndalsá: veitt í ánni í óþökk landeiganda

Hópurinn að veiðum í Sunndalsá.

Hópur manna fór fyrir skömmu í Sunndalsá í Arnarfirði og veiddi þar lax, sem þeir töldu eldislax, í net og á stöng. Alls veiddust 16 laxar að því er fram kemur á myndbandi sem einn úr hópnum, Ívar Örn Hauksson, setti á netið þar sem veiðunum var lýst. Þar kemur fram að Arctic Fish verði sendur reikningur fyrir kostnaði við aðgerðirnar. Aðspurður um það hver stæði að þessu sagði Ívar að það væru einstaklingarnir í hópnum.

Þrír eigendur eru að Sunndalsá. Einn þeirra er Jón Páll Halldórsson, Ísafirði. Pálmi K. Jónsson sonur hans sagði við Bæjarins besta að ekki hafi verið aflað heimildar þeirra fyrir veiðunum. Aðspurður sagði hann að leyfið hefði ekki verið veitt hefði erindi borist. Sunndalsá sé á sem landeigendur hafi haft út af fyrir sig, áin sé síðsumarsá og veitt í henni á haustin og þeir séu ósáttir við að verið sé að vekja athygli á ánni.

Pálmi sagði að samþykki allra landeigenda þurfi fyrir veiðunum.

Annar eigandi er Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmaður. Hann staðfesti í samtali við Bæjarins besta að hafa samþykkt umræddar veiðar. Þriðji eigandinn var Sigurður Samúelsson. Rætt var við Finn Torfa Magnússon einn erfingja hans og sagði Finnur að Leó Alexander Guðmundsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun hefði haft samband við sig sama dag og farið var í ána og hafi hann veitt samþykki sitt.

Finnur Torfi taldi að árlega væru veiddir um 100 fiskar í ánni auk þess sem stolist væri í ána.

Ívar Örn Hauksson.

Tveir veiðimannanna.

DEILA