Strokulaxar: búið að greina 164 eldislaxa

Frá laxeldi í Patreksfirði.
Frá laxeldi í Patreksfirði.

Í yfirliti frá Hafrannsóknarstofnun kemur fram að stofnunin hefur fengið 306 laxa til greiningar. Þegar er brúið að greina 164 sem eldislaxa, þar af 161 úr slysasleppingunni í Patreksfirði. Enn á eftir að greina 142 laxa. Tveir fiskar með brot í uggum hafa verið af villtum uppruna, annar var úr Hólsá á Suðurlandi og hinn úr Mjólká.

Mat á kynþroska laxa á sama kvíastæði sýndi 35% kynþroska. Miðað er við að allt að 3.500 laxar kunni að hafa sloppið en sú tala er óviss þar sem ekki er vitað um afföll seiða við bólusetningu og útsetningu í kvína. Miðað við að þau afföll hafi engin verið þá má áætla að allt að 1200 laxar leiti upp í ár til hrygningar.

Matvælastofnun segir í fréttatilkynningu í ágústlok um strokið að reynslan af framleiðsluskýrslum eldisaðila er að reikna megi með um 2-4% skekkjumörkum frá fjölda útsettra seiða og þess sem slátrað er í hverri kví.  Í kvína fóru 133.052 seiði í upphafi og ef miðað er við 2% afföll þá skýrir það um 2.600 af mismuninum óútskýrða 3.500 í kvínni á Patreksfirði. Væri það nærri lagi hefðu um 900 laxar sloppið og liðlega 300 þeirra verið kynþroska.

Dreifing laxanna sem greindir hafa verið er þannig flestir veiddust á Norðurlandi og Strandasýslu eða 92. Á Vestfjörðum veiddust 51 og 20 á Vesturlandi. Loks einn eldislax á Suðurlandi.

DEILA