Strandabyggð: vill tafarlausar úrbætur á Innstrandarvegi

Innstrandarvegur er í Steingrímsfirði innan Hólmavíkur. mynd: Jón Halldórsson.

Innstrandarvegur í Strandasýslu, sem er frá vegamótum í Arnkötludal við Hólmavík og suður Strandirnar yfir í Hrútafjörð er enn að hluta til gamall malarvegur. Vegurinn er oft að mati heimamanns nánast ókeyrslufær og hættulegur á köflum, þó eru þarna við veginn meira en fimmtíu heimili og skólaakstur bæði til Hólmavíkur og Hvammstanga.

Enn er gamall malarvegur utan við bæinn Kirkjuból í Tungusveit og út fyrir bæinn Þorpa um það bil 4 til 6 km langur kafli. Þessi vegarkafli hefur verið á samgönguáætlun um áratugaskeið en jafnan verið frestað aftur og aftur.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar sagði í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að vegarkaflinn Heydalsá – Þorparværi nú á dagsskrá árið 2028 skv. tillögu að samgönguáætlun 2024-2038 sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda og er undirbúningur af því verkefni á lokametrunum.

Í Kollafirði er gamall og úrsérgengin vegur (að stofni til síðan 1948) frá bænum Litla Fjarðarhorni við botn fjarðarins um Broddaneshlíð að Ennishálsi og yfir í Bitrufjörðinn ca 10-12 km langur. Þessa leið ekur skólabíll daglega, og er ástand vegarins þannig að þegar rignir er þarna hola við holu og nánast ófært um að fara, en á þurrum góðviðrisdögum leggur nánast rykský yfir bæina sem næst vegi standa ef umferð er. Yfir Ennisháls liggur síðan gamalli malarvegur oft mjög grófur og illur yfirferðar á köflum frá Broddadalsá að Bræðrabrekku í Bitrufirði.

Vegagerðin: engar fjárveitingar í Kollafirði

Þaðan er svo slitlag á vegi um Birtufjörð og yfir Stikuháls og ofan í Guðlaugsvík í Hrútafirði. þaðan er malarvegur breiður og vel uppbyggður frá bænum Guðlaugsvík að bænum Prestbakka ca 16km langu. Viðmælandi Bæjarins besta sagði að þarna dytti honum helst í hug að það hafi hreinlega gleymst að leggja bundna slitlagið á veginn á sínum tíma. Vegurinn þar er líkt og í Kollafirði hola við holu í bleytutíð en oft mjög hröð umferð við betri aðstæður með tilheyrandi grjótkasti til ama og tjóns fyrir vegfarendur.Þarna fer um skólabíll alla virka daga frá Þambárvöllum í Bitru að Hvammstanga.

G. Pétur Matthíasson segir að ekki séu í neinum framtíðar áætlunum nokkrar fjárveitingar til vegabóta í Kollafirði og yfir Ennishálsinn.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð var inntur eftir áherslum sveitarstjórnar varðandi Innstrandarveg. Hann sagði að sveitarstjórn hafi ekki ályktað sérstaklega fyrir komandi Fjórðungsþing og muni ekki vera með neina formlega ályktun þar um varðandi Innstrandarveg.  „Við vinnum hins vegar markvisst að þessu máli á öðrum vettvangi, t.d. beint gagnvart Vegagerðinni, gagnvart þingmönnum og ráðherrum.  Málið var t.d. mikið rætt við Þingmenn í framhaldi af lokun Hólmadrangs og þá í tengslum við umræðu um nýja atvinnuuppbyggingu og eins þróun í ferðaþjónustu, t.d. með tilkomu hótels á Hólmavík.“

köllum eftir eðlilegum innviðum

Þorgeir bætti því við að „Það liggur alveg ljóst fyrir og hefur gert lengi, að sveitarstjórn Strandabyggðar vill sjá tafarlausa úrlausn mála á Innstrandarvegi, enda þjónar hann Vestfjörðum öllum, ekki bara Strandabyggð.  Innstrandarvegur er lykilatriði í „Vestfjarðaleiðinni“ svokölluðu sem stjórnvöld hafa lagt áherslu á.  Við köllum eftir eðlilegum innviðum til að standa undir nafni hvað Hringveg 2 eða Vestfjarðaleiðina varðar.“

DEILA