Nýlokið er kynningarfundi Matvælaráðherra um lagareldi. Þar voru kynnt drög að stefnu í atvinnugreininni fram til 2040 og aðgerðaráætlun til ársins 2028. Lagareldi nær til sjókvíaeldis, landeldis, úthafseldis og þörungaræktar. Drögin hafa nú verið birt i samráðsgátt stjórnvalda. Kynningin fjallaði fyrst og fremst um sjókvíaeldi enda er sú grein komin lengst af eldisgreinunum. Útgefin leyfi eru fyrir 101.600 tonna framleiðslu og þar af eru 90.000 tonn fyrir eldi á frjóum laxi. Árleg framleiðsla í sjókvíaeldi er komin upp í um helming af því.
Fram kom í máli Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að lagareldi gæti orðið mikilvæg stoð í efnahag landsmanna og lagt mikið til verðmætasköpunar. Vísaði hún til skýrslu Boston Consulting Group um möguleika lagareldis en lagi áherslu á að vísindin yrði höfð að leiðarljósi við framkvæmd stefnunnar.
Í grunnspá Boston kemur fram að tekjur af sjókvíaeldi geti orðið 94 milljarðar króna árlega að óbreyttu og vaxið upp í 234 milljarða króna með aukningu á framleiðslu.
Fram kom í máli Kolbeins Árnasonar, skrifstofustjóra í matvælaráðuneytinu að fram til 2028 verða auknar fjárveitingar til Hafrannsóknarstofnunar og Matvælastofnunar og störfum við fiskeldiseftirlit verði fjölgað úr 8 í 21. Skattheimta af eldisfyrirtækjum verði einkum með framleiðslugjaldi eins og þegar hefur verið lögfest , Fiskeldissjóður verði lagður niður og tekjum hans dreift til fiskeldissveitarfélaga og 80% af umhverfissjóðs verði ráðstafað til Hafrannsóknarstofnunar. Þá verði tekin upp skipulagning leyfa þannig að á hverju eldissvæði verði aðeins eitt fyrirtæki með leyfi og loks er boðað kerfi sem eykur eða minnkar framleiðslumagn fyrirtækja eftir frammistöðu varðandi strok, afföll og lús. Þá verði áhættumat miðað við fjölda fiska í stað magns eins og nú er.
Athyglisverðast er þó að stjórnvöld eru greinilega á því að efla atvinnugreinina og nýta möguleikana í lífríkinu til verðmætasköpunar og lífskjarabata landsmanna. Stöðugum kröfum andstæðinga sjókvíaeldis um bann við eldinu er augljóslega hafnað. Það stendur ekki til miðað við þau drög að stefnu sem kynnt var af hálfu stjórnvalda í morgun.
-k