Smábátaeigendur: vilja 48 daga strandveiðar í lög

Frá aðalfundi landssambands smábátaeigenda. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Strandveiðar og fyrirkomulag þeirra var ofarlega á baugi á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem haldin var um síðustu helgi. Landssambandið krefst að fest verði í lög að strandveiðileyfi hafi að lágmarki 48 róðrardaga.

Aðalfundurinn vill ennfremur afnema heimild Fiskistofu um stöðvun strandveiða, tekin verði upp heimild til pörunar á umframafla, þannig að hægt verði að jafna það sem er umfram í róðri í næsta róðri. Heimild þessi nái til 26 kg af óslægðum þorski. Þá verði heimildir strandveiðibáta til löndunar í VS sjóð í samræmi við aðrar veiðar.

Ufsi og karfi verði frjáls sem meðafli við strandveiðar.

Landssamband smábátaeigenda leggur til að ef strandveiðibátur er kominn með 500 kg í uppsafnaðan umframafla þá missi viðkomandi einn veiðidag.

LS leggur til að eigendum strandveiðibáta verði heimilt að ráða afleysingarmann á strandveiðibát í allt að 10 daga.

Loks má nefna að aðalfundurinn samþykkti aðbætt verði við úthlutun í þorski upp í 250 þús. tonn strax. Það muni auka rými til strandveiða.

DEILA