Sigurvon: Fundað á sameinuðu starfsvæði

Frá fundinum á Patreksfirði. Myndir: Thelma Hjaltadóttir.

Stjórn Sigurvonar hélt kynningarfund á Patreksfirði á miðvikudaginn í síðustu viku. Markmiðið með fundinum var að kynna félagið á stækkuðu starfsvæði félagsins sem nú inniheldur einnig sunnanverða Vestfirði eftir sameiningu við Krabbameinsfélag Vesturbyggðar og Tálknafjarðar (KVOT). Fundað var í félagsheimilinu á Patreksfirði og meðal annars voru ræddar hugmyndir um hvernig gera mætti félagið sýnilegra á svæðinu. Þá var ákveðið að Fanney Inga Halldórsdótti tæki við sem tengiliður af Önnu Stefaníu Einarsdóttur eftir næsta aðalfund en tæki til starfa nú þegar. Eru tveir tengiliðir á sunnanverðum Vestfjörðum fram í  mars.  

Stjórn Sigurvonar sér mikil tækifæri í stækkuðu þjónustusvæði og hlakkar mikið til að kynnast nýjum félagsmönnum. Hvetur stjórnin áhugasama um að setja sig í samband við starfsmann Sigurvonar; Thelmu Hjaltadóttur ef þeir vilji skrá sig í félagið eða fræðast um starfsemi þess – eða tengiliðina tvo, þær Fanney Ingu og Önnu Stefaníu.

Krabbameinsfélagið Sigurvon styður fjárhagslega við félagsmenn sína til að standa straum af gistikostnaði, sem annars myndi gera róðurinn enn þyngri er hann bætist ofan á læknis- og rannsóknakostnað. Félagið veitir auk þess einstaklingum ótilgreinda fjárstyrki sé óskað eftir því.

Með því að skrá sig í félagið og greiða ársgjaldið eru félagsmenn því að styðja við bakið á þeim sem eru í krabbameinsmeðferð.




Næsta fimmtudag mun stjórn Sigurvonar bregða sér til Hólmavíkur og ræða við Strandamenn. Fundurinn hefst kl. 20 í Café Riis á Hólmavík og eru allir hjartanlega velkomnir.

DEILA