Ríkisstjórnin: fæstir óánægðir á vestanverðu landinu

Tæplega 17% kjósenda eru ánægðir með ríkisstjórnina í nýrri könnun Maskínu, en 56% eru óánægðir. Þriðji valkosturinn er í meðallagi og er 27% svarenda sem merkja við hann.

Marktækur munur er á afstöðu kynja. Konur eru síður óánægðar en karlar. Helmingur kvenna er óánægður en 61,5% karla. 21% karla segjast vera í meðallagi ánægðir og 33% kvenna.

Ánægja með störf ríkisstjórnarinnar vex með aldri og er mest í elsta aldurshópnum en þó ekki meiri en 26%. Að sama skapi minnkar óánægjan með aldrinum og er hún mest í yngsta aldurshópnum 61,5%. Í elsta hópnum er óánægjan 48,5%.

Minnst er ánægjan í Reykjavík og á Suðurnesjum og Suðurlandi 13 – 14%. Á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem eru tekin saman, er ánægjan 16,7%. Þar er hins vegar óánægjan minnst eða 49,4% og er það eina landssvæðið þar sem óánægjan með ríkisstjórnina er minni en 50%. Hópurinn í meðallagi er stærstur á Vesturlandi og Vestfjörðum 33,9%. Mest er óánægjna á Austurlandi, þar sem hún fer yfir 60%.

Stjórnarandstaðan fær slaka einkunn

Ekki er ánægjan með störf stjórnarandstöðunnar meiri samkvæmt könnuninni. Mælist hún aðeins 13,5% borið saman við 16,9% sem ríkisstjórnin fær. En óánægjan með stjórnarandstöðuna mælist minni en með ríkisstjórnina. Tæplega 40% eru óánægð með stjórnarandstöðuna en 56% óánægð með ríkisstjórnina. Engu að síður eru þeir þrefalt fleiri sem eru óánægðir með stjórnarandstöðuna en þeir sem eru ánægðir með hana.

Konur eru frekar ánægðar og síður óánægðar með stjórnarandstöðu en karlar. Tæp 15% kvenna eru ánægðar en aðeins 8,6% karla. Af körlum eru 49,9% óánægðir og 33,5% kvenna eru óánægðar.

Óánægjan með stjórnarandstöðuna er næst mest á Vestfjörðum og Vesturlandi 49% og er aðeins meiri á Norðurlandi þar sem hún var 51,5%.

Könnunin fór fram frá júlí til september 2023 og voru svarendur 4.218 talsins.

DEILA