Patreksfjörður: æðarvarpið jókst eftir að sjókvíaeldið hófst

Frá Hlaðseyri. Myndin er tekin úr vaktkofanum.

Á Hlaðseyri við Patreksfjörð jókst æðarvarpið mikið eftir að sjókvíaeldið hófst í firðinum árið 2012. Helgi Páll Pálmason segir að í varpinu séu um 500 hreiður. „Það var ekki fyrir enn laxaeldi eða sjókviaeldi byrjaði árið 2012 sem æðavarpið tók virkilega við sér. Frjósemi jókst þar sem æðarkollan virðist vera betur á sig komin þar sem kræklingur sest á bönd og festingar á kvíum. Fleiri ungar komust á legg  þar sem máfur hafði nóg að borða í laxakvíum.“ Helgi Páll segir það hafa verið mjög jákvætt að fá umferð manna og báta. „Hef ég ekki séð nein merki um neikvæð áhrif laxeldis í sjó á æðarvarpið mitt. Stærsta vandamálið gagnvart æðavarpinu er refur og minkur.“

Æðarvarpið á Hlaðseyri er manngert. Árið 1971 var sótt æðarkolla til Tálknafjarðar. „Hún var tekin með hreiðri og öllu saman og sett í einn hólmann á Hlaðseyri og útbúið netbúr yfir hana. Þessi æðakolla kom upp 6 ungum. Árið eftir verptu nokkrar kollur og þá má sega að varpið væri byrjað á Hlaðseyri.“

Árið 1988 voru um 100 hreiður í varpinu en þá komst tófa í það og hún eyðilagði það allt á þremur sólarhringum. Þá var ekki um annað að ræða en að byrja upp á nýtt. Fengin voru egg úr æðarvarpi á Bíldudal og þeim ungað út. Þeir drápust hver á fætur öðrum og við rannsókn kom í ljós ungarnir þoldu ekki myglusvepp sem var í heyinu sem sett var undir ungana.

Ekki gafst Helgi Páll upp við þetta mótlæti. „Við hjónin keyptum 7 fermetra garðhús reistum það fyrir ofan varpið, settum í það sólarafhlöðu og útvarp og eftir það hefur varpið bara vaxið.“

Árið 2012 voru 112 hreiður í varpinu. Þá byrjaði sjókvíaeldið og hreiðrunum fjölgaði hratt. Árið 2016 voru þau 320 og núna eru um 500 hreiður í varpinu.

„Það hefur alltaf verið kríuvarp svona frá þrjátíu hreiðrum til 100 mest í sumar og allir kríuungar komust legg. Mikið er af mófugli sérstaklega af hrossagauk. Það eru notuð dekk og flögg, kollurnar verpa mjög þétt saman“ segir Helgi Páll.

DEILA