Núpur í Dýrafirði

Núpur í Dýrafirði er forn kirkjustaður og þar sátu lengi voldugir höfðingjar á fyrri tíð. Þar var skólasetur nær alla tuttugustu öld eða allt frá árinu 1907 er unglingaskóli var settur þar í fyrsta sinn, þann 4. janúar.[

Öldum saman var Núpur eitt helsta stórbýlið á Vestfjörðum, en að meðtöldum öllum hjáleigum var jörðin talin 60 hundruð að dýrleika eftir fornu mati.  Í sóknarlýsingu frá árinu 1840 er landkostum og náttúrufari á Núpi lýst með þessum orðum:

Slægjuland er ekki mikið á þessum bæjum nema á Núpsdal sem einungis heyrir til heimajörðinni. Mjög er vetrarþungt í þessu þorpi vegna snjóþyngsla á vetrum. Beitarland er lítið eða ekkert heima nema á Núpsdal og er hann notaður þar til. Þar er kostasamt land á dalnum og allur peningur þar hafður oftast í seli. Á vetrum er sauðfé haft flest við sjó, á fjörubeit, ásamt nokkru heyi. Móskurður er góður í Innrihúsalandi [Innrihús voru ein af hjáleigunum á Núpi – innsk. K.Ó.] en skógur enginn. … Langur spölur er til sjávar úr þessu þorpi því undirlendi er mikið en víðast mjög votlent. … Núpur hefur oftar en einu sinni fengið skemmdir af skriðuföllum. Þar er hlaðið fyrir ofan túnið lítið garðpetti til varnar skriðufalli.[

Um síðustu aldamót stóð Núpsbærinn lítið eitt fyrir utan og neðan kirkjuna sem þá stóð á sama stað og kirkjan frá 1939 stendur nú. Ætla má að bær og kirkja hafi staðið þarna á sama stað í margar aldir en elsta skólahúsið á Núpi og skólabyggingin frá fjórða áratug þessarar aldar standa rétt fyrir ofan gamla bæjarstæðið. Frá Núpsbænum er örskammt til fjalls en liðlega einn kílómetri til sjávar, því undirlendi er hér talsvert eins og tekið var fram í sóknarlýsingunni frá 1840.

Af vefsíðunni sogurogsagnir.is

DEILA