Mast: lúsaböðun með heitu vatni gefur góða raun

Berglind Helga Bergsdóttir sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun . Mynd: RUV.

Arnarlax er að reyna nýjung við lúsaböðun í Arnarfirði. Fenginn var til landsins sérstakur bátur til verksins frá Noregi. Eldisfiski er dælt úr kví upp í bátinn þar sem hann fer í 31,5 gráðu heitt vatn í 31 sekúndu og er svo dælt aftur í kvína. Þessi hitavatnsmeðferð virðist að sögn Berglindar Helgu Bergsdóttur, sérgreinadýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun gefa góða raun. Um það bil 70 -80% af laxalúsinni fer af fiskinum og allt að 98% af fiskilúsinni. Hún segir að þetta sé í fyrsta sinn sem þessi meðferð er reynd hér á landi.

Berglind segir að nauðsynlegt sé fyrir íslensku fyrirtækin að vera með svona búnað á Íslandi. Dýralæknir fyrirtækisins er á staðnum og fylgist með þessu en Berglind er nýkomin að vestan og hefur þar fylgst með aðgerðum. Hún segir að fylgjast þurfi vel með ástandi fisksins eftir hitavatnsbaðið, sérstaklega varðandi mögulegt hreisturslos. Það sé með þessa aðferð eins og annað að henni fylgja kostir og gallar.

RUV hafði ekki rétt eftir

Berglind segir að RUV hafi ekki haft alveg rétt eftir henni í frétt í gær. Það er ekki búið að slátra 1000 tonnum af eldislaxi. Búið sé að slátra upp úr 6 kvíum og byrjað að slátra upp úr seinni 6 kvíunum. Alls verður slátrað upp úr 12 kvíum í Tálknafirði. Í þeim hafi verið um ein milljón eldisfiska áður en afföll hófust um það bil 1 kg hver. Ekki liggir fyrir hvert magnið var þegar ákveðið var að slátra upp úr kvíunum. Í firðinum öllum voru 3,5 milljónir fiska. Hún segir að það hafi verið ákvörðun fyrirtækjanna að grípa til slátrunar og að ljóst sé að fiskurinn verði ekki nýttur til manneldis heldur fari í meltu.

DEILA