Listasafn Ísafjarðar: dregin lína

Opnun sýningar: Sigrún Gyða Sveinsdóttir, Elísabet Anna Kristjánsdóttir, Karl Kvaran og Svavar Guðnason 
Ísafirði 27.10 – 30.12 2023.

Listasafn Ísafjarðar býður gesti velkomna á opnun haustsýningar safnsins DREGIN LÍNA. Opnun verður 27. október nk. kl.16.00 í sal Listasafns Ísafjarðar á annarri hæð í Safnahúsinu Eyrartúni. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Á milli Sigrúnar Gyðu og Svavars Guðnasonar, Elísabetar Önnu og Karls Kvaran hefur verið dregin lína. Línan er margvísleg; ýmist hörð og bein, eða mjúk og hlykkjótt, stundum er hún augljós og á tíðum óljós. Teikning Karls leikur sem vísbending í verkum Elísabetar Önnu og teikning Svavars tengir Sigrún Gyða við gamlar minningar. Línurnar hafa að lokum myndað heildstæða og skýra mynd þar sem myndefnið er einlægt og dularfullt samtal fjögurra listamanna.

Í verkinu Fjársjóðsleitin ýjar Elísabet að frásögn þar sem eitthvað hefur gerst, mögulega hefur eitthvað fundist eða tapast og jafnvel er um að ræða ráðgátu sem má reyna að leysa. Í verkinu má finna fundnar ljósmyndir, liti og form úr teikningu Karls sem leika vísbendingar og gáttir inn í aðra heima. Með verkinu Draumur Pareidoliu ræður Sigrún í liti og form í nafnlausu verki Svavars Guðnasonar. Formin í teikningu Svavars ferðast með Sigrúnu í sálfræðitíma sem hún sótti sem barn í kjölfar góðkynja heilaæxlis á stærð við tómat og ofskynjana eftir morfíngjöf. Pareidolia verður táknmynd sólarinnar og lýsir hræðslu sinni við ofhlýnun, framtíðarmyrkur, smáplast og rifrildi foreldra sinna fyrir framan sjónvarpið.

///

Elísabet Anna Kristjánsdóttir (f.1988) býr og starfar í Malmö, Svíþjóð. Í myndlist sinni notar hún eigin bakgrunn í ljósmyndun til að skoða brotakenndar minningar og frásagnir undir áhrifum ljóðrænu hversdagsleikans. Hún er með meistaragráðu í myndlist frá Konsthögskolan í Malmö (2021). Karl Kvaran (1924 – 1989) er í hópi okkar þekktustu abstraktmálara, en Listasafn Ísafjarðar á tvö verk í safneign eftir hann. Á sýningunni má finna nafnlausa tússteikningu eftir Karl sem kom í safneign árið 1987.

Sigrún Gyða Sveinsdóttir (f.1993) notar bakgrunn sinn í tónlist til að skapa verk á mörkum myndlistar og klassískra tónsmíða en verkum hennar má lýsa sem rýmistengdum leikþáttum um tengsl, hringrásir og árekstra. Hún er með framhaldspróf í söng og MA í myndlist frá Sandberg Instituut í Amsterdam (2021). Svavar Guðnason (1909 – 1988) var virkur í hópi róttækra myndlistarmanna sem kenndir voru við Cobra. Teikningin á sýningunni er frá árinu 1935, hún er nafnlaus og unnin í litkrít. Listasafn Ísafjarðar eignaðist verkið árið 1985.

Aðgangur ókeypis

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði, Barnamenningarsjóði og Orkubúi Vestfjarða
Listasafn Ísafjarðar hlýtur einnig stuðning Ísafjarðarbæjar
.

Processed with VSCO with f2 preset

Sigrún Gyða Sveindóttir.

Elísabet Anna Kristjánsdóttir.

DEILA