Laxeldi: snemmslátrum vegna lúsar

Eldiskvíar í Tálknafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Arnarlax og Arctic Fish hafa gripið til þess ráðs að slátra ungum eldislaxi vegna mikillar fjölgunar lúsar sem herjar á laxinn í kvíunum. Arnarlax slátraði í síðustu viku úr kvíum í Tálknafirði.

Ekki er þetta ástand í öllum kvíum og í Hringsdal er þessa dagana verið að slátra góðum fullvöxnum eldisfiski.

Arctic Fish hefur ákveðið að slátra eitthvað af eldisfiski í kvíum í Hvannadal í Tálknafirði. Um er að ræða 1 – 2 kg fisk. Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar segir að með þessu telji fyrirtækið að það nái stjórn á aðstæðum.

Talið er að fiskurinn, sár eftir lúsina, muni ekki þola veturinn.

Ekki liggur fyrir hve miklu af eldisfiski þarf að snemmslátra vegna lúsarinnar en samkvæmt heimildum Bæjarins besta gæti það verið um 600 tonn.

DEILA