Ólafur Sigurgeirsson, lektor við fiskeldis- og fiskalíffræðideild háskólans á Hólum segir að allt tal um varanlegan skaða á villtum laxastofnum við einstaka innblöndunaratburði sé gáleysisgap.
Tilefnið er hin mikla umræða sem orðið hefur af einni slysasleppingu í ágúst síðastliðnum og stóryrtum fullyrðingum um afleiðingar hennar.
Hann er ekki einn um þessa skoðun. Ragnar Jóhannsson, sá sem hefur yfirumsjón með áhættumati Hafrannsóknarstofnunar á erfðablöndun milli villts lax og eldislax segir í grein fyrr á árinu að „mati færustu vísindamanna á þessu sviði þarf ágengni að vera að minnsta kosti 4% á hverju ári áratugum saman til þess að erfðablöndun nái að skerða hæfni stofns árinnar“. Albert K. Imsland prófessor í fiskeldisfræðum við háskólann í Björgvin í Noregi segir litla hættu á erfðablöndun milli villts lax og eldislax. Hann segir að kynbæturnar sem eldislaxinn hefur gengið í gegnum geri það að verkum að honum gengur lakar í hrygningu og að náttúruvalið sjái til þess að villti laxinn hafi yfirburði í þessum efnum. Jón Örn Pálsson, sjávarútvegsfræðingur, sem lengi hefur komið að fiskeldi hér á landi ritar grein á bb.is fyrir skömmu og segir þar að mikil erfðafesta einkenni laxastofnana og að þeir hafi þolað mikið inngrip í áratugi. Jón Örn segir náttúruvalið skýringuna og hún geri það að verkum að erfðablöndunin sé afturkræf þar sem hún hefur orðið.
Ólafur Sigurgeirsson veltir því fyrir sér á dögunum í færslu á facebook hvort hægt sé að spá fyrir um afleiðingar af blöndun milli villts lax og eldislax. Þar vísar hann til svonefnds IBSEM -líkan sem kynnt var 2015 og aftur 2018 (sjá: https://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/eva.12615). Þar eru fræðimenn að leggja mat á mögulega blöndun að gefnum ákveðnum forsendum. Líkanið reynir að meta áhrif mismikillar innblöndunar eldisfisks (á meðfylgjandi mynd: rauður=5%; grænn=10%; blár = 30%) í villtan laxastofn að gefnum forsendum – í 200 ár (40-50 kynslóðir laxa). Hlutföllin segja til um hlut eldislaxa í kynþroska fiski í viðkomandi á.
Líkanið tekur tillit til þynningaráhrifa af villugöngum (metur þær 5%) og metur æxlunarhæfni eldisfisks m.a. út frá niðurstöðum rannsókna frá árinu 2000 (4 kynslóð kynbóta), að hæfni hrygna sé 30% og hænga 5% af hæfni villtra laxa. Jafnframt er gert ráð fyrir jöfnu kynjahlutfalli.
Það leiðir til að við 10% hlutfall eldislaxa verður hlutdeild erfðaefnis frá eldisfiski 1,75% á ári en 8,75% ef 50% hrygningarfisks er eldisfiskur.
Það sem líkanið gerir ekki er að gera ráð fyrir að hæfni eldislaxa hafi minnkað enn meira eftir viðbótar 10 kynslóðir kynbóta. Þó eru mjög sterkar vísbendingar um það, segir Ólafur, m.a. að sífellt færri eldislaxar finnast í norskum ám ár frá ári.
innblöndun allt að 10% í 200 ár hefur vart mælanleg áhrif
Meðfylgjandi mynd sýnir mat líkansins. Þannig kemur fram að 5-10% árleg innblöndun hefur vart mælanleg áhrif. Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar miðar við að innblöndun sé 4% eða minni. „30% árleg innblöndun í 200 ár leiðir til þess að laxastofninn er orðinn 1/3 þess sem var í upphafi, en um leið og innblöndun hættir (e. 200 ár) sér náttúruvalið (og genaflæði vegna villugöngufisks) til þess að stofninn endurheimtir sig. Allt tal um varanlegan skaða við einstaka innblöndunaratburði er því gáleysisgap.“
Niðurstaða Ólafs Sigurgeirssonar er þessi:
„Lærdómurinn er:
1) Eldislax á að framleiða með ljósastýringu og hann á að vera innan kvíapokans = sammála ráðherra málaflokksins um það.
2) Náttúruvalið er sterk þvottavél sem velur burtu genasamsætur sem draga úr lífsþrótti /fitness.
3) Einskiptisatburður sem við sjáum þessar vikurnar er ekki líklegur til að hafa áhrif á villta laxastofna. Þá er bara að tryggja að hann sé það – og menn séu ekki að ala klakfiska í netpokum við Ísland.
4) Hef hvergi fundið eða fengið upplýsingar um að eldisfiskur hafi eytt villtum laxastofnum.“
Þetta væri gott fyrir RUV að kynna sér fyrir næsta Kveik um laxeldi.
-k