Lagarlíf: sjötta ráðstefnan um eldi og ræktun

Mynd frá síðustu ráðstefnu.

Á dag og á morgun verður sjötta ráðstefnan Lagarlíf á Grand hótel og hefst kl 10 með ávarpi matvælaráðherra Svandísar Svavarsdóttur.

Um ráðstefnuhaldið er félag og er tilgangur þess að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um lagarlíf og styðja þannig við menntun, rannsóknir, þróun og stefnumótun greinarinnar. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu. Lagarlíf er samheiti yfir atvinnugreinar sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða.

Fyrsta ráðstefnan var haldin 2017 og hefur verið haldin árlega síðan, að undanskildu árinu 2020 þegar ráðstefnan féll niður vegna covid19.

Ráðstefnan stendur í tvo daga og verða haldnar einar 13 málstofur um hin margvíslegustu efnu sem varða greinina. Flest erindi verða á ensku. Á morgun verða í upphafi auk ávarps matvælaráðherra erindi Andre Akse, framkvæmdastjóra NASF, The North Atlantic Salmon Fund, sem fallar um vaxandi þörf fyrir sjávarfæði. Ivan Vindheim framkvæmdastjóri Mowi ræðir um laxeldi bæði á Íslandi og á heimsvísu. Þröstur Sæmundsson frá SFS ræðir um skattheimtu á fiskeldi og ber saman Ísland, Noreg og Færeyjar. Dr. Hanna í Horni frá stjórnarráði Færeyja fjallar um þýðingu fiskeldis fyrir Færeyinga.

Ráðstefnunni lýkur á föstudaginn með málstofu um framtíðarstefnumótun í íslensku lagareldi. Þar verður rætt um skýrslur Ríkisendurskoðunar og Boston Consulting Group. Ræðumenn verða ekki af verri endanum, Kolbeinn Árnason frá Matvælaráðuneytinu, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, Ögumdur Haukur Knútsson, Fiskistofustjóri og Björn Hembre, forstjóri Arnarlax. Einar K. Guðfinnsson, fyrrv. sjávarútvegsráðherra mun flytja lokaorð og draga saman efni málstofunnar.

DEILA